Kviknaði í um miðja nótt

Friðrik Weisshappel á Laundromat-kaffihúsinu í Austurstræti fyrir nokkrum árum.
Friðrik Weisshappel á Laundromat-kaffihúsinu í Austurstræti fyrir nokkrum árum. mbl.is/Árni Sæberg

Eldur kom upp á Laundromat Café við Århusgade á Austurbrú í Kaupmannahöfn aðfaranótt sunnudags. 

„Þetta gerðist bara um miðja nótt. Það var enginn á staðnum og engin þvottavél í gangi, ég veit ekki hvað gerðist. Þetta er óskemmtilegt en lífið heldur áfram,“ segir Friðrik Weisshappel, eigandi staðarins, í samtali við mbl.is. 

Slökkvilið náði fljótt tökum á eldinum og tókst að koma í veg fyrir að hann breiddist í nærliggjandi hús. Ljóst er skemmdirnar á kaffihúsinu eru miklar en Friðrik hefur ekki enn fengið að fara inn á staðinn þar sem rannsókn lögreglu er ekki lokið.  

„En ég veit að staðurinn er mjög illa farinn. Ég get voða lítið séð í gegnum rúðurnar, þær eru svo sótaðar,“ segir hann, en hann segir mestu máli skipta að enginn var inni á staðnum þegar eldurinn kom upp. 

Sjálfur var Friðrik staddur í Vadehavet-þjóðgarðinum, um 300 kílómetra frá borginni, þegar honum bárust fregnirnar. „Ég var að horfa á starrana fljúga sinn svartsólardans áður en þeir fara að sofa. Eftir frábæran dag var ömurlegt að fá þessar fréttir. En lífið heldur áfram og ég er vel tryggður,“ segir hann. 

Friðrik er vongóður um að hann geti farið inn á kaffihúsið í dag og metið aðstæður. Ljóst er að mikil vinna er fram undan. „Um leið og ég kemst inn á staðinn þá byrja ég að byggja upp aftur og enda með betra og fallegra Laundromat-kaffihús sem opnar vonandi fljótlega,“ segir hann en viðgerðir og uppbyggingin mun að öllum líkindum taka nokkrar vikur eða jafnvel mánuði. 

Friðrik rekur þrjá Laundromat-staði í Kaupmannahöfn, en hann kemur ekki að rekstri Laundromat Café í Austurstræti í Reykjavík sem opnaði aftur í vor. Friðrik vonar að gestir staðarins við Århusgade geti notið veitinganna og þjónustunnar á hinum stöðunum á með uppbygging Laundromat við Århusgade  stendur yfir. 

Friðrik rekur þrjá Laundromat-staði í Kaupmannahöfn, auk þess sem Laundromat …
Friðrik rekur þrjá Laundromat-staði í Kaupmannahöfn, auk þess sem Laundromat Café hefur opnað að nýju í Austurstræti í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert