Hefja niðurrifið árið 2020

Togarinn Orlik bíður nú örlaga sinna.
Togarinn Orlik bíður nú örlaga sinna. Ljósmynd/Ingvar Jóel

Vinna erlendra sérfræðinga við að fjarlæga asbest úr rússneska togaranum Orlik hefst á næstu vikum. Útlit er fyrir að niðurrif togarans hefjist á nýju ári.

Umhverfisráðuneytið hefur veitt Skipa­smíðastöð Njarðvík­ur leyfi til niðurrifsins.

Niðurrifið var nýhafið þegar það var stöðvað 3. sept­em­ber sl. eft­ir fyr­ir­vara­lausa út­tekt Um­hverf­is­stofn­un­ar. Skipa­smíðastöð Njarðvík­ur hef­ur starfs­leyfi frá Heil­brigðis­eft­ir­liti Suður­nesja til niðurrifs skipa allt að 500 tonn. Orlik veg­ur hins veg­ar yfir 500 tonn og þurfti því að sækja um leyfi til Um­hverf­is­stofn­un­ar.

Er í eigu Hringrásar

Orlik hefur legið við Njarðvíkurhöfn frá 2014 en togarinn er í eigu Hringrásar.

Daði Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir fyrirtækið munu vinna sem undirverktaki Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur við niðurrifið.

Fyrsti verkþátturinn sé hreinsun á asbesti úr skipinu. Erlendir sérfræðingar muni fara í verkefnið. Sá verkþáttur muni taka 2-3 vikur í undirbúningi.

Orlik við bryggju.
Orlik við bryggju. Ljósmynd/Ingvar Jóel


 

Vilja byrja í nóvember

„Vonandi getur sú vinna hafist í þessum mánuði. Það þarf að fara í gegnum ákveðið ferli hjá Heilbrigðiseftirlitinu og Vinnueftirlitinu,“ segir Daði.

Spurður hvort ekki sé slæmt að geta ekki hafið verkefnið fyrir veturinn segir Daði það ekki veðurháð. Skipið sé komið á fast. „Þegar við erum búin að hreinsa asbestið klippum við skipið niður með stórvirkum vinnuvélum. Það er mjög lítið gert í höndunum,“ segir Daði.

Hann segir verkefnið hafa tafist um tvo mánuði. Asbesthreinsun hafi frestast út af stöðvun framkvæmda. Nákvæmari verkáætlun liggi fyrir í næstu viku. Það geti tekið 6-8 vikur að fjarlægja asbestið. 

„Það verður því ekki fyrr en eftir jól sem við getum farið að klippa skipið niður,“ segir Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert