Efast um áhrif styrkja á stjórnmál

„Ég held aftur á móti að þetta geti verið mál …
„Ég held aftur á móti að þetta geti verið mál sem við getum dregið lærdóm af til að tryggja eftirfylgni,“ segir Bjarni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, efast um að styrkir frá lögaðilum geti raunverulega haft áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka hérlendis. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki horft til þess að skila þeim styrkjum sem Samherji hefur gefið flokknum í gegnum árin vegna meintra mútugreiðslna fyrirtækisins. 

Í frétta­skýr­ingaþætt­in­um Kveik sem sýnd­ur var í gær­kvöldi var hul­unni svipt af meint­um mútu­greiðslum Sam­herja sem hafi endað í vös­um ráðamanna í Namib­íu í skipt­um fyr­ir kvóta og al­menna vel­vild. 

Bjarni segist dapur yfir því sem kom fram í þættinum og tekur undir það að efla þurfi eftirfylgni með íslenskum fyrirtækjum eftir að Ísland veitir ríkjum þróunaraðstoð. Hann ber fullt traust til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra, en tengsl hans við Samherja hér á árum áður hafa verið til umræðu eftir fréttaflutning Kveiks. 

Styrkir lögaðila takmarkaðir

„Styrkir lögaðila hafa lengst af verið 400.000 krónur á ári, þeir voru nýverið hækkaðir upp til samræmis við verðlag og það var gríðarleg breyting þegar við settum þak á framlag lögaðila til stjórnmálaflokka. Þakið var einmitt til þess hugsað að draga úr líkum á því að með fjárframlögum gætu lögaðilar haft áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

„Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að fyrirtæki sem leggja stjórnmálaflokki til á heilu ári því sem nemur tæplega meðal mánaðarlaunum í landinu séu ekki líkleg til þess að geta haft mikil áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka.“

„Maður fyllist depurð“ 

mbl.is greindi frá því fyrr í dag að Sam­fylk­ing­in hyggðist skila þeim styrkj­um sem flokk­ur­inn hef­ur fengið frá Sam­herja. Samherji lagði það í vana sinn að styrkja íslenska stjórnmálaflokka. Mest styrkti fyrirtækið Sjálfstæðisflokkinn eða um 2,4 milljónir á nokkrum árum, eftir því sem fram kemur í frétt Stundarinnar

Bjarni var eins og margir aðrir hryggur yfir því sem kom fram í þætti Kveiks.

„Maður fyllist depurð við að sjá það sem þarna virðist hafa verið að gerast af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þarna koma fram vísbendingar um tengsl íslensks fyrirtækis, mútugreiðslna og skattsvika. Það eitt og sér er dapurlegt en það er líka dapurlegt að sjá þetta gerast í landi sem við höfum reynt að veita aðstoð við að rísa á lappirnar efnahagslega meðal annars með því að nýta auðlindir betur. Við höfum reynslu af því að með góðri auðlindastýringu er hægt að skapa gríðarleg verðmæti fyrir þjóðir. Það er dapurlegt að sjá hvernig úr því hefur spilast, eins og það birtist manni á skjánum.“

Læra af máli Samherja

Smári Mccarthy, þingmaður Pírata, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að Samherji hafi með meintum gjörðum sínum stefnt allri þróunarsamvinnu Íslendinga í hættu.

„Ég er algjörlega ósammála því. Ég held aftur á móti að þetta geti verið mál sem við getum dregið lærdóm af til að tryggja eftirfylgni. Ég held að það sé staðreynd að við höfum lagt margt gott til málanna en okkur tókst ekki að uppræta þann djúpstæða undirliggjandi vanda sem er greinileg landlæg spilling í stjórnkerfinu. Ég kannast heldur ekki við að í okkar þróunaraðstoð höfum við sett okkur markmið sem við höfum ekki náð. Við vorum með ákveðin markmið sem gengu ágætlega eftir,“ segir Bjarni. 

Alvarlegar ásakanir á hendur Samherja komu fram í Kveik í …
Alvarlegar ásakanir á hendur Samherja komu fram í Kveik í gær.

Spurður hvort af þessu megi draga þann lærdóm að mikilvægt sé að fylgjast með íslenskum fyrirtækjum sem stunda viðskipti í þróunarríkjum segir Bjarni: „Við þurfum án vafa að halda áfram að gera það og við þurfum líka að taka þátt í alþjóðastarfi sem sækir að spillingu úr öllum áttum.“

Ber fullt traust til Kristjáns

Spurður hvort mál Samherja og það að ísland hafi verið sett á gráan lista FATF, alþjóðlegs starfs­hóps um aðgerðir gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka, hafi ekki slæm áhrif á ímynd Íslands og bendi til þess að gallar séu á íslensku eftirlitskerfi segir Bjarni:

„Grái listinn er ekki yfirlýsing um að allt sé hér í molum heldur að við séum til athugunar og viðbrögðin vegna þessa hafa ekki verið þau sem sumir óttuðust. Ég held að hér sé um algjörlega ósambærileg mál að ræða en bæði hafa þó þá tengingu að það er ákveðin hætta á orðsporshnekki sem við þurfum að vera meðvituð um.“

Kristján Þór Júlí­uss­on, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, var áður stjórn­ar­formaður Sam­herja og starfaði hjá fyr­ir­tæk­inu í þing­hlé­um. Bjarni segir enga ástæðu til að efast um hæfi hans til þess að fylgjast með málaflokknum.  

„Hann hefur fullt traust. Það væri öðruvísi ef hann hefði átt hlut að máli í einhverjum viðskiptagjörningum þar sem mútugreiðslur hefðu komið við sögu eða skattsvik en ekkert slíkt á við í þessu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert