Vilja rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabankans

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Sautján þingmenn úr röðum Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að gerð verði rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Farið er fram á að rannsóknin verði falin þriggja manna nefnd sem forseti Alþingis skipar. 

Fram kemur, að rannsóknarnefndin eigi að leggja mat á hvernig til hafi tekist þegar fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hafi verið komið á fót, m.a. framkvæmd hennar og efnahagsleg áhrif. Nefndin geri m.a. grein fyrir fjármagninu sem var flutt til landsins með fjárfestingaleiðinni, hvaðan fjármagnið kom og hvaða einstaklingar hafi verið skráðir fyrir fjármagninu sem var flutt til landsins, eða hvaða félög og eignarhaldi þeirra. 

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að tillagan hafi áður verið lögð fram á 146. löggjafarþingi. Hún náði ekki fram að ganga og sé nú lögð fram að nýju með breytingum.

„Tilgangur tillögunnar er að varpa skýru ljósi á allar þær fjármagnstilfærslur sem voru gerðar fyrir tilstilli fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands,“ segir í greinargerðinni. 

Kannað verði hvort leiðin kunni að hafa verið misnotuð

Tekið er fram að markmið rannsóknarinnar eigi að vera að leiða það í ljós hvaða fjármagn hafi verið flutt til landsins með fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, þ.e. umfang gjaldeyrisútboða Seðlabanka Íslands, hverjir voru þátttakendur í fjárfestingarleiðinni, m.a. fjöldi þeirra, og hvort um var að ræða innlenda eða erlenda aðila, hvaða einstaklingar eða félög tóku þátt og hvernig eignarhaldi félaganna var háttað, hvaðan hinn erlendi gjaldeyrir kom, hvaða fjárhæðir var um að ræða og hvaða fjárfestingar var ráðist í vegna þátttöku í fjárfestingarleiðinni.

„Jafnframt verði rannsóknarnefndinni falið að meta þau áhrif sem fjárfestingar fyrir tilstilli fjárfestingarleiðarinnar hafi haft á íslenskt efnahagslíf. Þá leggja flutningsmenn til að kannað verði sérstaklega hvort samþykkt tilboð í útboðum fjárfestingarleiðarinnar kunni í einhverjum tilfellum að hafa brotið gegn skilmálum leiðarinnar og hvort leiðin kunni að hafa verið misnotuð á einhvern hátt.“

Flutningsmenn tillögunnar eru: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy,
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson.

mbl.is