Rúta með 23 um borð endaði úti í á

Rútan úti í ánni.
Rútan úti í ánni. Ljósmynd/Landsbjörg

Rúta fór út af þjóðveginum við Hafurshól undir Eyjafjöllum í morgun. Hún endaði úti í á en ekkert amar að farþegunum 23 sem eru um borð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út klukkan 8.12 vegna óhappsins.

Viðbragðsaðilar eru komnir á vettvang og þarf að selflytja farþegana með björgunarsveitarbílum úr rútunni. Þeir verða fluttir í fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn hefur opnað í Heimalandi.

Snarvitlaust veður er á svæðinu og fer vindur upp í 40 m/s í vestu hviðum. Í gildi er gul viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Uppfært kl. 9.32:

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, er búið að koma öllum úr rútunni í félagsheimilið Heimaland þar sem opnuð hefur verið fjöldahjálparstöð.

„Mér skilst að hópurinn sé þokkalega rólegur og yfirvegaður. Það slasaðist enginn og fólki tókst að halda ró sinni,“ segir Davíð Már.

Hann segir að ferðamenn hafi verið um borð í rútunni en veit ekki nánari deili á þeim.

mbl.is