Stormur syðst

Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum.
Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Gul viðvörun er enn í gildi á Suðurlandi og gildir hún til klukkan 19. Það er hvöss austanátt sunnan- og suðvestanlands í dag en stormur syðst. Víða snarpar vindhviður við fjöll, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

„Austanátt í dag, allhvöss eða hvöss sunnan- og suðvestanlands og stormur syðst, en fer heldur að lægja síðdegis. Skýjað veður og dálítil rigning sunnan heiða. Hiti 2 til 7 stig, en nálægt frostmarki á Norðausturlandi.

Austan 10-18 sunnanlands á morgun, hvassast við ströndina, annars mun hægari vindur. Lítils háttar rigning áfram á sunnanverðu landinu, en bjart veður norðan til og þar kólnar heldur.

Á fimmtudag er útlit fyrir ákveðna austanátt, með rigningu sunnan- og vestanlands og mildu veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.


Þokkaleg færð á landinu þótt víða sé einhver hálka. Hvasst með suðurströndinni og undir Eyjafjöllum en eins hafa verið vindhviður upp undir 30m/sek. á þekktum hviðustöðum við Faxaflóa, segir á vef Vegagerðarinnar. Þar kemu fram að það er flughált á Mikladal og Hálfdán. Þæfingur er á Hrafnseyrarheiði en snjóþekja á Dynjandisheiði.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan 13-23 m/s S- og SV-lands, hvassast syðst, en víða 8-13 í öðrum landshlutum. Skýjað og rigning með köflum S-til. Hiti 1 til 7 stig, en í kringum frostmark á NA-verðu landinu. Dregur úr vindi seint í dag.

Austan 10-18 við S-ströndina á morgun, annars mun hægari. Dálítil rigning S-lands, en bjart veður norðan heiða og frost að 7 stigum í innsveitum þar.

Á miðvikudag:
Allhvöss austanátt syðst á landinu, annars mun hægari vindur. Skýjað og rigning með köflum S-lands. Hiti 0 til 5 stig, en frost 0 til 5 stig í innsveitum á N-landi.

Á fimmtudag:
Austan 5-13, en hvassara með suðurströndinni. Rigning á S-verðu landinu, annars þurrt. Hiti 0 til 7 stig.

Á föstudag og laugardag:
Austlæg átt og úrkomulítið, en rigning með köflum SA- og A-lands. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig.

Á sunnudag og mánudag:
Norðaustlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt V-lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert