Kallaði Dóru Björt „drullusokk“ og „skítadreifara“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, óskaði Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, …
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, óskaði Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, til hamingju með „nafnbótina að vera drullusokkur meirihlutans“. mbl.is/​Hari

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, vera „drullusokk“ og „skítadreifara“ á borgarstjórnarfundi sem staðið hefur yfir síðan klukkan 10 í morgun.  

Dóra Björt kvaddi sér hljóðs við umræður um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 og gagnrýndi hún meðal annars forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins í fjármálum borgarinnar á fyrri árum. 

Í andsvari sem Vigdís veitti hóf hún mál sitt á að benda á að í fundarsköpum er heimilt að stoppa ræðumann ef málflutningur fer úr hófi fram. „Hér hefur einn borgarfulltrúi meirihlutans tekið að sér að vera drullusokkur meirihlutans. Því það er alveg sama hvað er til umræðu hér í borgarstjórnarsalnum, það er alltaf hraunað yfir flokkana, þá aðallega Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Vigdís og benti á að nú væri líka hægt að drulla yfir Miðflokkinn, áður en hún óskaði Dóru Björt til hamingju með „nafnbótina að vera drullusokkur meirihlutans“. 

Dóra Björt koma þá aftur í pontu. „Hún vísaði í heimild til að stoppa ræðu ef einhver færi út fyrir velsæmismörk. Hún stóð hér í pontu og kallaði mig drullusokk. Áhugavert, flott hjá þér Vigdís,“ sagði Dóra Björt. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. mbl.is/Hari

Vigdís bað þá fundarmenn að rifja upp fyrri ræður Dóru Bjartar í borgarstjórn. „Það þarf ekki annað en að sjá og heyra og lesa ræðurnar [til að sjá hverju] fólk hér inni þarf að sitja undir þegar hún er hér í ræðustól, þessi skítadreifari.“

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, greip þá inn í og bað borgarfulltrúa um að gæta velsæmis í orðavali sínu. 

Fundur borgarstjórnar stendur enn yfir og fylgjast má með umræðum hér: mbl.is

Bloggað um fréttina