Mál skautakonu „í farvegi“ hjá íþróttahreyfingunni

Í yfirlýsingunni segir að íþróttahreyfingin geti ekki fjallað efnislega um …
Í yfirlýsingunni segir að íþróttahreyfingin geti ekki fjallað efnislega um einstök mál af þessu tagi á opinberum vettvangi, en að mikilvægt sé að taka fram að málið sé í farvegi innan hreyfingarinnar undir forystu Skautafélags Akureyrar. Mynd úr safni. AFP

Skautafélag Akureyrar, Skautasamband Íslands, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), og Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) sendu í gær frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna máls Emilíu Rósar Ómarsdóttur listskautara, sem greindi frá því í viðtali við Fréttablaðið fyrir rúmri viku síðan að hún hefði, er hún var iðkandi hjá Skautafélagi Akureyrar, orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu þjálfara síns og ekki fengið stuðning frá Skautafélaginu. Emilía, yngri systur hennar og móðir fluttust búferlum til Reykjavíkur vegna málsins.

Í yfirlýsingunni, sem birtist á vef ÍSÍ, segir að íþróttahreyfingin geti ekki fjallað efnislega um einstök mál af þessu tagi á opinberum vettvangi, en að mikilvægt sé að taka fram að málið sé í farvegi innan hreyfingarinnar undir forystu Skautafélags Akureyrar.

Emilía var sautján ára gömul þegar hún segir áreitni þjálfans hafa hafist, en hann 31 árs gamall. Í viðtalinu við Fréttablaðið sagði Emilía að hann hefði stundað það að gefa henni gjafir í hennar óþökk og ítrekað beðið hana um að hitta hann, jafnvel utan við bæjarmörkin, þar sem þau gætu fengið frið. Hún neitaði honum margsinnis og segir Emilía að eftir það hafi hann snúist gegn henni og einnig gegn tveimur yngri systrum hennar.

Foreldrar Emilíu kvörtuðu til stjórnar Skautafélagsins vegna málsins. Skautafélagið tók málið til skoðunar en stóð með þjálfaranum og í yfirlýsingu frá félaginu, sem birt var á vefnum 7. september í fyrra en síðar fjarlægð, sagði að „engar sannanir né merki“ hafi verið um að þjálfarinn hefði brotið siðareglur eða mismunað iðkendum.

Nú er málið aftur til skoðunar hjá íþróttahreyfingunni, sem áður segir, og sagði Emilía í samtali við Fréttablaðið í gær að hún hefði verið boðuð á fund til þess að ræða málið. Enginn hefði þó veitt henni afsökunarbeiðni vegna málsins frá því að hún sagði sögu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert