Lögregla rifjar upp fjársvikamál úr Íslendingasögu

„Aðalráður konungur dó fyrir rétt um 1000 árum og í …
„Aðalráður konungur dó fyrir rétt um 1000 árum og í grunninn hafa glæpir lítið breyst, en með tilkomu netsins þá hafa svindlarar auðveldari leiðir til að komast að fólki,“ segir lögregla. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti í morgun færslu á Facebook um netglæpi og segir glæpina sjálfa í raun ekki nýja, heldur hafi þeir einfaldlega færst í nýjan búning með tilkomu netsins. Eitt elsta dæmið um þá fjársvikaglæpi sem nú eru stundaðir á netinu megi finna í Íslendingasögunum, nefnilega í Gunnlaugs sögu ormstungu, sem samin var á 14. öld en varðveitt í yngra handriti.

„Flestir slíkir glæpir sem við glímum við byggjast á því að svindla á enda notenda, þeim sem situr við tölvuna, frekar en að ráðast gegn tölvubúnaðinum sjálfum. Þetta sjáum við á hverjum degi í brotum eins og fjárfestasvikum, þar sem fólki er boðið „tækifæri“ til að fjárfesta en er í raun svikamylla sem reynir að hafa fé af fólki. Við erum líka með margvísleg ástarsvindl, lánasvindl eða íbúðasvindl. Í öllum tilvikum er brotaþola talin trú um að sá/sú sem hann er í sambandi við sé annar/önnur en er raunverulegt eða að það sé möguleiki á að græða mikið á stuttum tíma. Eitt elsta dæmi um slíkt í okkar rituðu heimildum er í Gunnlaugs sögu ormstungu,“ skrifar lögregla og rifjar síðan upp svikin:

„Gunnlaugur vildi eiga Helgu hina fögru, dóttur Þorsteins sem var Egilsson, Skalla-Grímssonar, Kveld-Úlfssonar hersis úr Noregi en Ásgerður hét móðir Þorsteins og var Bjarnardóttir. Til að sanna sig þá fór Gunnlaugur utan og var við hirð Aðalráðs konungs Játgeirssonar í Englandi. Við hirðina var Þórormur.

[Og einn dag um morguninn snemma þá mætti Gunnlaugur þremur mönnum á stræti einu og nefndist sá Þórormur er fyrir þeim var. Hann var mikill og sterkur og furðu torveldlegur.
Hann mælti: „Norðmaður,“ segir hann, „sel mér fé nokkuð að láni.“

Gunnlaugur svarar: „Ekki mun það ráðlegt að selja fé sitt ókunnum mönnum.“

Hann svarar: „Eg skal gjalda þér að nefndum degi.“

„Þá skal á það hætta,“ segir Gunnlaugur. Síðan seldi hann honum féið.

Og litlu síðar fann Gunnlaugur konunginn og segir honum fjárlánið.

Konungur svarar: „Nú hefir lítt til tekist. Þessi er hinn mesti ránsmaður og víkingur og eig ekki við hann en eg skal fá þér jafnmikið fé.“

Gunnlaugur svarar: „Illa er oss þá farið,“ segir hann, „hirðmönnum yðrum, göngum upp á saklausa menn en láta slíka sitja yfir voru og skal það aldrei verða.“

Og litlu síðar hitti hann Þórorm og heimti féið að honum en hann kvaðst eigi gjalda mundu.]

Hér féll Gunnlaugur í þá gildru að halda að af því að Þórormur var hirðmaður konungs þá væri hann traustsins verður og þótt það komi ekki fram í sögunni þá er líklegt að Gunnlaugur taldi sér einhvern hag í að lána honum fé.“

Þetta segir lögregla að sé sín elsta skráða heimild um fjársvik sem byggjast á fölsku trausti, svipað og algengt sé með netglæpi í dag.

„Aðalráður konungur dó fyrir rétt um 1000 árum og í grunninn hafa glæpir lítið breyst, en með tilkomu netsins hafa svindlarar auðveldari leiðir til að komast að fólki,“ segir lögregla.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert