Aðstæður mjög erfiðar á slysstað

Viðbragðsaðilar eru komnir á vettvang slyssins í Sölvadal innarlega í …
Viðbragðsaðilar eru komnir á vettvang slyssins í Sölvadal innarlega í Eyjafirði. Kort/Map.is

Viðbragðsaðilar eru komnir á slysstað í Sölvadal í Eyjafirði, þangað sem þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á hæsta forgangi á tíunda tímanum í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórninni á Akureyri barst tilkynning vegna alvarlegs slyss um klukkan 21:40 og voru þyrlan, björgunarsveitir, lögregla og sjúkraflutningamenn þá kölluð út.

Ekki náðist aftur í þann sem tilkynnti slysið og vissu viðbragðsaðilar því lítið um aðstæður eða hvað hafði gerst fyrr en komið var á staðinn nú fyrir stundu, um tveimur klukkustundum eftir að útkallið barst. Vegir eru víða lokaðir á svæðinu og færð slæm, sem gerði viðbragðsaðilum erfitt fyrir.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru kafarar sérsveitar ríkislögreglustjóra sendir á slysstað með þyrlunni, auk kafara frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og lögreglumanni frá ríkislögreglustjóra.

Viðbragðsaðilum er ekki unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

mbl.is