Ekki leitað í ánni í nótt

Aðstæður hafa verið gríðarlega erfiðar til leitar.
Aðstæður hafa verið gríðarlega erfiðar til leitar. Ljósmynd/Aðsend

Dregið verður úr leit í ánni sjálfri, Núpá, sem drengurinn féll ofan í í gær. Viðbragðsaðilar verða við leitarstörf við ána í nótt og leit verður fram haldið í fyrramálið af fullum krafti. Útlit er fyrir að betra veður verði á morgun til leitar. Aðgerðastjórn leitarinnar tók þessa ákvörðun í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. 

Aðstæður á vettvangi eru mjög krefjandi og lélegt skyggni á köflum. Vakta þarf ána að hluta því að áin hleður upp krapa sem getur síðan runnið af stað með stuttum fyrirvara og þar með eykst straumurinn í ánni yfir það svæði sem leitað er á. Slíkt gerðist í eitt skipti rétt fyrir klukkan 18 og skapaðist þá ákveðin hætta en góð viðbrögð og viðvaranir urðu til þess að ekki hlaust slys af.

Björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar hafa verið sleitulaust við störf síðan í gærkvöldi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í nótt fleiri björgunarmenn og kafara norður og björgunarsveitir víðast hvar af landinu komu einnig akandi í morgun. 


 

mbl.is