Harmar samkomulagsleysi um kolefnismarkaði

Guðmundur Ingi fagnar því að málefnum hafsins hafi verið lyft …
Guðmundur Ingi fagnar því að málefnum hafsins hafi verið lyft upp í fyrsta sinn í lokaákvörðun fundarins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það eru vonbrigði að ekki náðist að klára þau mikilvægu verkefni sem lágu fyrir fundinum. Það er brýnt að það takist á næsta ári. Að mínu mati þurfa ríki heims að taka á loftslagsmálum af mun meiri festu og ábyrgð. Ég fagna hins vegar því að málefnum hafsins er nú lyft upp í fyrsta sinn í lokaákvörðun fundarins.“

Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umvherfis- og auðlindaráðherra Íslands, um 25. aðildarríkjafundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem lauk í gær, einum og hálfum sólarhring á eftir áætlun. Síle lagði mikla áherslu á málefni hafsins í sinni formennsku þetta árið og því var í fyrsta sinn í lokaákvörðun aðildaríkjafundarins vísað í mikilvægi þess að tengja málefni hafsins við loftslagsmálin.

Aðildarríkjunum tókst ekki að ná samkomulag um fyrirkomulag og regluverk um kolefnismarkaði, í samræmi við 6. gr. Parísarsamningsins, líkt og vonir stóðu til um. Um var að ræða þriðju tilraun aðildarríkjanna til að ná um þetta samkomulagi.

Áframhaldandi vinnu var vísað til undirnefndar samningsins sem fundar næst í júní í sumar.
Margir fundarmenn lýstu yfir vonbrigðum með að samningar skyldu ekki hafa náðst, en þó voru flestir sammála um að mikið hefði áunnist í viðræðunum. Næstu skref munu byggja á þeirri vinnu sem nú hefur farið fram.

Ekkert samkomulag náðist um fyrirkomulag og regluverk um kolefnismarkaði, í …
Ekkert samkomulag náðist um fyrirkomulag og regluverk um kolefnismarkaði, í samræmi við 6. gr. Parísarsamningsins, líkt og vonir stóðu til um AFP

Ekki tókst heldur að samþykkja reglur um bókhald og skýrslugjöf, sem eru einnig mikilvægir þættir í innleiðingu Parísarsamningsins. Þá náðist ekki samkomulag um langtímafjármögnun loftslagsmála og mun umræða um þau mál því færast til næsta fundar.

Næsti aðildarríkjafundur (COP26) verður haldinn í Glasgow dagana 9.-19. nóvember 2020, undir formennsku Breta, í samvinnu við Ítali. Á þeim fundi þarf að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í Madríd í dag, auk þess sem ríkin munu þurfa að kynna hert markmið í samræmi við ákvæði Parísarsamningsins.

Tilkynning Stjórnarráðsins 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert