Reru fyrstir á Suðurskautslandið

Fiann reri á Suðurskautslandið. Á bak við hann situr Andrew …
Fiann reri á Suðurskautslandið. Á bak við hann situr Andrew Towne, einn liðsmanna Fianns í leiðangrinum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er gríðarlega stoltur af teyminu mínu og afreki okkar. Við erum að skrifa söguna,“ sagði úthafsræðarinn Fiann Paul, sem búið hefur á Íslandi undanfarinn rúmlega áratug, starfar hér sem þerapisti og rær undir íslenskum fána, á bloggsíðu sinni í gærkvöld.

Fiann varð á jóladag einn af sex ræðurum sem afrekuðu í fyrsta skipti „hinn ómögulega róður“ sem kallaður er, að róa milli Suður-Ameríku og Suðurskautslandsins. Þurfti hópurinn meðal annars að fara gegnum hið alræmda Drakesund, sem þekkt er fyrir ógurlega strauma og hættulegar öldur.

Fiann fór fyrir hópnum, en með afrekinu varð hann einnig fyrsti maðurinn til að ljúka svokallaðri alslemmu úthafsævintýra (e. Ocean Explorers Grand Slam), en í því felst að hafa róið yfir Atlantshafið, Indlandshafið, Kyrrahafið, Norður-Íshafið og Suður-Íshafið.

„Ég er ánægður með að hafa getað sett nýtt viðmið í leiðöngrum knúnum mannaflinu einu og ég vona að það verði útgangspunktur fyrir metnaðarfulla landkönnuði framtíðarinnar,“ sagði Fiann á bloggsíðu sinni.

Höfrungar á háhyrningar

„Ég er búinn að ná mér aftur að fullu. Við höfum verið á skipi sem ferjar okkur og bátinn aftur til Punta [Arenas í Síle]. Ég er einungis að glíma við minni háttar meiðsl, sem eru á batavegi. Ég sakna þess að æfa!“ skrifaði Fiann í gærkvöld, þá á leið frá Suðurskautslandinu aftur til Síle, en hópurinn lagði af stað til Suðurskautslandsins frá Hornhöfða, syðsta punkti S-Ameríku, klukkan 12.00 þann 13. desember síðastliðinn og kom til Suðurskautslandsins klukkan 13.45 á jóladag.

Báturinn og teymið sem reri til Suðurskautslandsins.
Báturinn og teymið sem reri til Suðurskautslandsins. Ljósmynd/Aðsend

Eins og áður segir hefur Fiann áður róið á heimsins stærstu höfum, en sagði um leiðangurinn til Suðurskautslandsins að þar hefði hann séð meira dýralíf en á nokkru öðru hafi. „Fágætar fuglategundir, fiskar og sjávarspendýr, höfrungar og háhyrningar sem dæmi.“

Um ástæðuna fyrir því að hann hefur lagt fyrir sig að róa um höfin og slá heimsmet sagði hann: „Áður var ég á persónulegri vegferð en nú langar mig bara að geta lifað af því sem ég elska að gera.“

Stór stund í sögu álfunnar

Engum sem þekkir til í bransanum dylst hversu stórt afrek Fianns er. Sem dæmi sagði Craig Glenday, ritstjóri Heimsmetabókar Guinness, eftir að tilkynnt var að leiðangurinn hefði tekist: „Ég hef fylgst með þessum róðri með miklum áhuga. „Hinn ómögulegi róður“ er réttnefni, enda held ég að fæst okkar átti sig á því hversu erfið þessi áskorun er.“

Þá fjallaði New York Times um málið í fyrradag, hvar m.a. sagði:

„Þeir þurftu að sveigja framhjá ísjökum, halda niðri andanum meðan stórir hvalir syntu hjá og berjast við öldur á stærð við byggingar, á meðan þeir reru í 24 klukkustundir á sólarhring.“ Þá var haft eftir Wayne Ranney, jarðfræðingi sem hefur farið um 50 sinnum um Drake-sund á vélknúnum báti: „Þetta er stór stund í sögu Suðurskautslandsins. Allur árangur þeirra var knúinn þessum 12 handleggjum, yfir 600 sjómílur. Það er algjörlega magnað.“

24 tímar á sólarhring

Hópur Fianns reri í tveimur þriggja manna teymum, og skiptust á á níutíu mínútna fresti, í 24 klukkustundir á sólarhring. Á besta degi sínum reru kapparnir 76,5 sjómílur, 141,6 kílómetra. Fimm sinnum á leiðinni var akkerið látið síga vegna ólgusjós. Þetta og fleira kemur fram á vefsíðu Heimsmetabókar Guinness, en eins og fyrr segir var þar á bæ fylgst vel með svaðilförinni.

Í leiðangrinum voru sett heimsmet á borð við fyrsta róðurinn á Suður-Íshafinu, syðsta punkti sem náðst hefur á árabáti og fyrsta róðurinn um Drake-sund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »