Fyrsta barn ársins fæddist í Reykjavík

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fyrsta barn ársins fæddist á fæðingardeild Landspítalans klukkan 2:19 í nótt og var það drengur. Alls hafa fjögur börn fæðst á Landspítalanum í nótt en ekkert barn fæddist þar frá klukkan 9:34 í gærmorgun þangað til í nótt.

Annað barn ársins, stúlka, fæddist í Björkinni klukkan 2:47 í nótt. Ekkert barn fæddist þar í gærkvöldi. 

Ekkert barn hefur fæðst á sjúkrahúsinu á Akranesi, Akureyri og Selfossi það sem af er ári og ekkert barn fæddist á þessum fæðingardeildum í gær.

Ný lög varðandi greiðslur úr fæðingarorlofssjóði taka gildi í dag. Þannig mun samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar lengjast um einn mánuð eða úr níu mánuðum í tíu mánuði. Síðan mun samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar lengjast um tvo mánuði til viðbótar og fer þá úr tíu mánuðum í tólf mánuði

Samkvæmt reglugerð sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði fyrir jól öðlast eftirfarandi breytingar gildi 1. janúar 2020 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar.

  • Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 128.357 kr. í 132.850 kr.
  • Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 177.893 kr. í 184.119 kr. 
  • Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 77.624 kr. í 80.341 kr.
  • Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 177.893 kr. í 184.119 kr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert