Rán, líkamsárás og vopnalagabrot

mbl.is/Eggert

Þrír eru í haldi lögreglu grunaðir um rán, líkamsárás, brot á vopna- og lyfjalögum og akstur undir áhrifum fíkniefna. Tilkynning barst til lögreglu skömmu fyrir miðnætti og voru mennirnir handteknir skömmu síðar. Þeir eru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Ekki er vitað um meiðsl árásarþola.

Fjórir menn voru handteknir í fjölbýlishúsi í Breiðholti í gærkvöldi þar sem tilkynnt hafði verið um notkun fíkniefna. Mennirnir eru grunaðir um vörslu og meðferð fíkniefna og þjófnað úr verslunum. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Í sama hverfi hafði lögreglan afskipti af konu í matvöruverslun í gærkvöldi vegna gruns um þjófnað. Konan var komin fram hjá greiðslukössum er hún var stöðvuð á leið úr versluninni með vörur fyrir tæpar 50 þúsund krónur. Konan kvaðst hafa gleymt að greiða fyrir vörurnar.

Ellefu eru vistaðir í fangageymslum lögreglunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert