Tvö barnanna alvarlega slösuð

Sjö erlendir ferðamenn voru fluttir á Landspítalann í gær eftir …
Sjö erlendir ferðamenn voru fluttir á Landspítalann í gær eftir að tveir bílar skullu saman á Skeiðarársandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Farþegarnir fjórir, þrjú börn og einn fullorðinn, sem fluttir voru á Landspítala í gær eftir umferðarslys á Skeiðarársandi, eru enn á gjörgæslu. Tvö barnanna eru alvarlega slösuð en það þriðja mun minna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum nú í morgun. Áður hafði verið greint frá því að farþegarnir fjórir væru allir taldir alvarlega slasaðir.

Þrír aðrir farþegar bílanna tveggja sem skullu saman voru í eftirliti á bráðamóttöku Landspítalans í gær, en tveir þeirra voru útskrifaðir í gærkvöldi og er nú aðeins einn enn til eftirlits.

Í tilkynningu frá spítalanum segir enn fremur að skipt hafi sköpum að fyrir skemmstu hafi verið tekin ákvörðun um að opna ný legurými á efri hæð bráðamóttökunnar í Fossvogi. Af þeim sökum hafi verið hægt að takast á við slysið með eðlilegum hætti.

Í samtali við mbl.is segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, að sérstaklega sé bent á þetta í ljósi fréttaflutnings undanfarinna vikna af ástandi á bráðamóttöku Landspítalans og áhyggjum af því að spítalinn væri ekki í stakk búinn til að takast á við hópslys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert