Aðstæður til aksturs víða varasamar

Flughálka er víða á Vestfjörðum.
Flughálka er víða á Vestfjörðum. Kort/Vegagerðin

Gul veðurviðvörun er enn í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi, Austurlandi og miðhálendinu. Hvasst er í þessum landshlutum og skúradembur.

Hlýnað hefur hratt á öllu landinu síðastliðinn sólarhring og eru rauðar hitatölur á flestöllum stöðum.

Í athugasemd veðurfræðings segir að flughálka geti myndast á vegum þegar blotnar á svelli eða þjöppuðum snjó. Þegar einnig er hvass vindur eru aðstæður til aksturs mjög varasamar.

Þá eru líkur á töluverðum vatnavöxtum á sunnan- og vestanverðu landinu í dag og á morgun. 

„Sérstaklega má búast við auknu afrennsli á norðanverðu Snæfellsnesi, svæðinu í kringum Mýrdalsjökul og á SA-landi. Einnig eru líkur á vatnavöxtum í Skagafirði og Eyjafjarðará vegna snjóbráðar í kjölfar hækkandi hita og hvassra vinda,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is