Sandfjallið úr Landeyjahöfn

Frá 2010 til loka árs 2019 er heildarmagn dýpkunarefnis úr …
Frá 2010 til loka árs 2019 er heildarmagn dýpkunarefnis úr Landeyjahöfn rúmlega 4,1 milljón rúmmetrar. Það er margfalt meira magn en áætlað var í upphafi. Þetta er mest fínn og meðalgrófur sandur.

Frá 2010 til loka árs 2019 er heildarmagn dýpkunarefnis úr Landeyjahöfn og innsiglingunni að henni rúmlega 4,1 milljón rúmmetrar (m³) eða nákvæmlega 4.148.764 rúmmetrar. Þetta er alveg geysilegt magn af sandi og margfalt meira en áætlað var þegar höfnin var hönnuð.

Í matsskýrslu fyrir Landeyjahöfn (Bakkafjöruhöfn, 2008) og tengdar framkvæmdir var heildarmagn viðhaldsdýpkunar áætlað um 30 þúsund m³ á ári og eftir aftakaveður var reiknað með að gæti þurft að fjarlægja um 80 þúsund rúmmetra. Reyndin var sú að margfalt meira hefur þurft að losa úr höfninni. Til dæmis var 317.700 rúmmetrum af sandi dælt upp árið 2019 og árið 2020 er áætlað að dæla upp 300.000-500.000 m³, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Forsendur áætlunar á umfangi viðhaldsdýpkunar hafa ekki staðist. Fyrir því eru nokkrar ástæður og vegur þar þyngst gosið í Eyjafjallajökli vorið 2010. Í kjölfar þess stórjókst framburður frá jöklinum sem veldur meiri efnisburði í innsiglingu Landeyjahafnar en reiknað var með.

Stækka þarf svæði losunar

Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu sl. þriðjudag hefur Vegagerðin birt til kynningar frummatsskýrslu VSÓ Ráðgjafar um ný efnislosunarsvæði fyrir utan Landeyjahöfn.

Til þessa hefur efnið verið losað á afmörkuðu svæði. En nú er talið nauðsynlegt að stækka það svæði vegna þess hve umfangsmikil efnislosunin hefur reynst. Eftir stækkun verður svæðið um 240 hektarar að stærð og getur tekur við um 10 milljón rúmmetrum af efni. Þessi svæði, sem eru í um 3,0 kílómetra fjarlægð frá Landeyjahöfn, eru talin duga til næstu 20-30 ára.

Niðurstaða frummatsskýrslunnar var sú að losun á efni úr höfninni á nýjum svæðum í sjó er talin hafa óveruleg neikvæð áhrif á lífríki sjávar og fjöru.

Rannsóknir á kornadreifingu á dýpkunarefni úr Landeyjahöfn hafa sýnt að dýpkunarefnið er að langmestum hluta fínn og meðalgrófur sandur, þ.e. með kornastæð undir 1 millimetra, segir m.a. skýrslunni. Straumhraði sjávarfalla er yfir 0,15 m/s í 61% af tímanum og ölduhæð er yfir 2 metrar í um 35% af tímanum. Því eru korn að stærð 1 mm á hreyfingu að minnsta kosti 20% af tímanum og hreyfing á minni kornum er enn tíðari. Hafstraumar eru með ríkjandi stefnu til vesturs við suðurströnd Íslands og ríkjandi öldustefna á svæðinu er suðvestan.

Efnið færst til norðvesturs

Dýptarmæling á núverandi og fyrirhuguðum losunarsvæðum við Landeyjahöfn hafa sýnt að efnið sem losað hefur verið er almennt að færast til norðvesturs. Einnig hafa þær sýnt að haugarnir sem voru á svæðinu 2017 hafa minnkað og færst um 50 metra til vesturs. Það sé því ljóst að efni á öllu losunarsvæðinu sé á mikilli hreyfingu. Eftir því sem sandurinn berst nær landi mun hann fara aftur inn í sandburðarbúskap suðurstrandarinnar. Þar munu straumar og öldur færa sandinn til og móta ströndina þannig að hún haldi sinni náttúrulegu mynd. Með því að stækka losunarsvæðið og dreifa efninu yfir stærra svæði verði hægt að koma í veg fyrir að haugar myndist. Botnsýni, sem tekin voru á svæðinu, hafa sýnt að við þessar aðstæður þrífst nær ekkert líf við botninn.

Í frummatsskýrslunni er einnig gert ráð fyrir að hafa heimild fyrir því að losa efni á rifi sem er utan hafnargarðsins. Þessir losunarstaðir hafa ekki verið notaðir undanfarin ár, en talið mikilvægt að eiga möguleika á því ef nauðsyn krefur.

Sandrifin myndast á ný

Samkvæmt áratuga dýptarmælingum liggur sandrif framan við suðurströndina í um 800-1.000 metra fjarlægð. Óvenjulegt veðurfar og öldufar árin 2010 og 2011 breytti ströndinni framan við höfnina þannig að sandrifið minnkaði og hvarf að hluta. Veturinn 2012 færðist öldufarið í sitt vanalega ástand og sandrifið byrjaði að myndast aftur. Losun við sandrifin er ætlað að styrkja og flýta fyrir myndun á sandrifinu ef öldufar er þannig að það hverfi eða minnki verulega. Ekki er búist við reglulegri losun á þessum svæðum. Þegar sandrifið er utan við höfnina brotnar aldan á rifinu og við það lækkar hún og missir orku. Hafnarmannvirkin verða því fyrir minni áraun og sandflutningar minnka. Samkvæmt rannsóknum er sandburður inn í höfnina minni þegar sandrifið er fullmyndað.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »