Andlát: Halldór Hermannsson

Halldór Hermannsson.
Halldór Hermannsson. Ljósmynd/Aðsend

Halldór Hermannsson, fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður á Ísafirði, lést á dvalarheimilinu Hlíf í gær, 22. janúar. Halldór var fæddur á Svalbarði í Ögurvík í Ísafjarðardjúpi 2. janúar 1934, sá 9. í röðinni í hópi ellefu barna þeirra Salóme Rannveigar Gunnarsdóttur og Hermanns Hermanssonar, útvegsbónda og seinna verkamanns á Ísafirði.

Halldór fluttist með foreldrum sínum ellefu ára gamall til Ísafjarðar og bjó þar æ síðan. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar og síðar hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík.

Ungur fór Halldór til sjós með föður sínum og var síðar stýrimaður og skipstjóri á ýmsum bátum og skipum frá Ísafirði. Hann festi kaup á 15 tonna bát, ásamt Óskari Jóhannessyni frá Dynjanda, árið 1968 en þeir gerðu út á rækju og línu í nokkur ár. Þremur árum síðar keyptu þeir 30 tonna bát og fyrstu beitingavélina sem kom hingað til lands. Þá starfræktu þeir rækjuverksmiðju á Ísafirði um nokkurt skeið. Halldór starfrækti síðan einn lítið frystihús á Ísafirði í nokkur ár.

Eftir að Halldór hætti í útgerð og fiskvinnslu var hann hafnarvörður og lóðs við Ísafjarðarhöfn. Halldór var formaður skipstjórafélagsins Bylgjunnar um árabil og síðar var hann formaður Félags eldri borgara á Ísafirði og stóð þá fyrir því að félagið kæmi sér upp félagsheimili. Einnig lét hann að sér kveða í stjórnmálum, svo sem á vettvangi Frjálslynda flokksins og var fyrir alþingiskosningar 1999 í efsta sæti á framboðslista flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra.

Eftirlifandi eiginkona Hallldórs er E. Katrín Gísladóttir, húsfreyja og fyrrverandi skrifstofumaður á Ísafirði. Börn þeirra eru Bergljót, Gunnar, Ragnheiður, Rannveig, Gísli Halldór, Hermann Jón og Guðmundur Birgir. Barnabörnin eru 19 og barnabarnabörnin 12.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert