Fimm gistu í fangaklefa í nótt

Fimm gistu í fangaklefa í nótt.
Fimm gistu í fangaklefa í nótt.

Talsverður erill var hjá lögreglu í gærkvöldi og nótt, klukkan fimm gistu fimm manns fangaklefa. Mikið var um ölvunartengd mál, annaðhvort þar sem þurfti að aðstoða ölvað fólk eða pústrar voru manna á milli, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. 

Tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi sem var til vandræða á hóteli í hverfi 104. Hann var handtekinn og fékk gistingu í fangaklefa þar til ástand hans lagast. Í Hafnarfirði var maður handtekinn vegna líkamsárásar og var hann vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.

Lögreglan veitti ökumanni undir áhrifum vímuefna eftirför í Reykjavík í nótt. Hann braut fjölmörg umferðalög þegar hann reyndi að komast undan lögreglu. Hann reyndist vera með fíkniefni meðferðis. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Lögreglan hafði afskipti af öðrum ökumanni sem reyndist einnig undir áhrifum og var hann auk þess ökuréttindalaus því hann hafði verið sviptur þeim. 

Tilkynnt var um slasaðan sjómann um borð í frystitogara sem var að leggjast að bryggju í Reykjavíkurhöfn, maðurinn var verkjaður í baki og fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert