65% Eflingarfólks á undanþágum

Um 700 félagsmenn Eflingar í 450 stöðugildum starfa hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Efling hefur veitt undanþágur vegna 300 stöðugilda í verkfallinu sem nú stendur yfir þar sem ljóst er að verkfallið myndi bitna illa á lífsgæðum fjölda fólks án starfsfólksins.

Talan á bara við um starfsfólk á velferðarsviði en alls eru ríflega 1.800 starfsmenn Eflingar hjá borginni nú í verkfalli.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir forsvarsmenn Eflingar hafa komið til móts við nánast allar óskir um undanþágur en þær gilda til miðnættis. Sótt hefur verið um framlengingu á undanþágunum og beðið er eftir svari við þeirri beiðni.

Eina óskin um undanþágu sem var hafnað var vegna starfsmanns í eldhúsi í Þorraseli og þar hefur forstöðumaður sinnt starfinu að einhverju leyti.

Í myndskeiðinu er rætt við Regínu um helstu áhrif ótímabundins verkfalls Eflingar sem hófst á mánudag.

Eins og staðan er má ekki:

Á hjúkrunarheimilum og þjónustuíbúðum má ekki þvo upp leirtau en heimilt er að þrífa önnur áhöld og bakka.

Í húsnæði fyrir fatlað fólk má ekki þvo þvott úr taui eða þrífa herbergi og sameiginleg rými en þar er heimilt að tæma rusl. Ekki er veitt undanþága fyrir að baða heimilismenn og ekki er veitt undanþága fyrir að búa um rúm.

Í heimaþjónustu er þvottur á taui ekki leyfður né þrif. Ekki má baða og ekki er veitt undanþága fyrir að búa um rúm.

Önnur áhrif sem nefna má eru að:

Ekki er boðið upp á hádegismat í félagsmiðstöðum fyrir um 400 manns

Ekki er veitt aðstoð við þrif í heimahúsum eða 250 þjónustuíbúðum. Sama staða er í íbúðum um 96 fatlaðra einstaklinga. Þá er ekki boðið upp á hádegismat í Gylfaflöt og Iðjubergi fyrir ríflega 70 manns og skert þjónusta er í Álfalandi.

mbl.is