Bjarni: Björn Leví á sokkaleistum í pólitísku skítkasti

Bjarni Benediktsson fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.
Bjarni Benediktsson fjár­mála- og efna­hags­ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sagðist við óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í dag vera orðið misboðið af framgöngu Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, en Björn hafði spurt Bjarna út í breytingar sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar og kostuðu að lokum ríkið nokkra milljarða eftir dóm Landsréttar um að Tryggingastofnun hafi verið óheimilt að beita skerðingu á kjör ellilífeyrisþega í janúar og febrúar 2017.

Björn kom fyrst í pontu og sagðist vera með tvær spurningar. Fyrri spurninguna mætti eflaust flokka sem „klassíska leiðinda pólitík,“ en að seinni spurningin væri tengd eftirlitshlutverki þingsins.

Vísaði hann næst til ofangreinds mál og sagði að þar hafi verið gerð klassísk mistök í þinglokastressi þegar málum væri troðið í gegnum þingið án þess að þau væru nægjanlega vel ígrunduð. „Þessi mistök kostuðu skattgreiðendur 4,8 milljarða og leiðréttingin sem var gerð kostaði á bilinu 800 – 1500 milljónir,“ sagði hann og vísaði þar næst í Landsréttarmálið og fleiri mál sem ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs hefði komið að. „Af hverju fara sjálfsæðismenn svona illa með almannafé,“ spurði hann.

Seinni spurningin var svo varðandi vaxtagreiðslurnar í umræddu máli og hvort ákvörðun um fjárheimildina væri ráðherrans eða ráðuneytisins.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Bjarni mætti því næst í pontu til andsvars, en var greinilega ekki sáttur með það sem Björn hafði lagt fram á borð. Sagðist honum algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig Björn vildi heimfæra upp á hann frumvarp sem hafi ekki komið frá Bjarna og svo að lokum verið samþykkt samhljóða á Alþingi og segja svo að lokum að þetta væri dæmi um illa meðferð Sjálfstæðisflokksins á almannafé.

„Veistu, ég verð bara að segja virðulegi forseti mér er algjörlega orðið misboðið að þessi háttvirti þingmaður, sem kemur hér á sokkaleistunum upp í ræðupúlt, í sitthvorum sokknum, ítrekað, með pólitískt skítkast í rauninni og ekkert annað. Hefur ekkert annað fram að færa hér í þingsal. Skuli ætlast til að maður taki svona fyrirspurn alvarlega. Ég bara get ekki gert það.“

Svaraði hann svo seinni hlutanum á þann veg að reynt væri að gæta ýtrustu sanngirni og fara að lögum. Hins vegar kæmu upp álitamál eins og í þessu tilfelli. Þetta væri hins vegar margrætt mál og hans afstaða væri að þegar fólk ætti kröfu á ríkið myndi hún innheimtast. Þar gæti ekki staðið á fjárheimildum að fá lögmætar kröfur greiddar af ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert