Nýir listrænir stjórnendur við Þjóðleikhúsið

Fjórir listrænir stjórnendur hafa verið ráðnir til Þjóðleikhússins.
Fjórir listrænir stjórnendur hafa verið ráðnir til Þjóðleikhússins. Ljósmynd/Aðsend

Þjóðleikhúsið hefur ráðið þau Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur, Ólaf Egil Egilsson, Ilmi Stefánsdóttur og Björn Bergstein Guðmundsson sem listræna stjórnendur.

Auk þeirra þá hefur Unnur Ösp Stefánsdóttir gengið til liðs við leikhúsið og mun vinna jöfnum höndum sem leikari og leikstjóri á komandi árum.  

„Til að efla leikhúsið, skerpa á listrænni sýn og stöðu hefur  Þjóðleikhúsið fastráðið fjóra öfluga og reynda listræna stjórnendur til að skipa teymi listrænna stjórnenda við leikhúsið ásamt leikhússtjóra. Allir verða þeir virkir í listrænni sköpun í leikhúsinu ásamt öðrum listamönnum hússins,“ segir í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu.

„Það er gríðarlegur fengur fyrir Þjóðleikhúsið að fá þessa reyndu og öflugu listamenn til liðs við leikhúsið. Þessir leikhúslistamenn eru leiðandi, hver í sínum flokki.  Ég er ekki í vafa um að landsmenn eigi eftir að njóta margra ógleymanlegra sýninga undir þeirra stjórn á næstu árum,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri í tilkynningunni en hann tók við starfinu um áramótin.

„Auk þess mun þessi hópur skipa þétt teymi sem vinnur að listrænni stefnu hússins – en leikhúsið stendur á skapandi tímamótum nú á 70 ára afmæli Þjóðleikhússins,“ segir hann  og bætir við að þessir listamenn bætist við frábæran hóp sem starfar í leikhúsinu. „Það eru spennandi tímar framundan í Þjóðleikhúsinu.“

Nánar um þá listrænu stjórnendur sem voru ráðnir: 

  • Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir sem listrænn ráðunautur og staðgengill leikhússtjóra
  • Ólafur Egill Egilsson sem fastráðinn leikstjóri
  • Ilmur Stefánsdóttir sem fastráðinn leikmyndahöfundur
  • Björn Bergsteinn Guðmundsson sem yfirljósahönnuður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert