Var nýbúinn að kaupa bílinn

mbl.is/Eggert

Tilkynnt var um eld í bifreið í Árbænum á sjötta tímanum í gær. Eldurinn var slökktur en eigandinn sagðist nýbúinn að kaupa bifreiðina. Hún var flutt af vettvangi með Króki.

Laust fyrir klukkan tvö í nótt var tilkynnt um umferðaróhapp. Bifreið var ekið á kyrrstæða bifreið og af vettvangi. Tjónvaldur var stöðvaður skömmu síðar, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ofurölvi maður var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan sjö í gærkvöldi og var hann vistaður í fangageymslu.

Grunaður um skjalfals

Í hverfi 108 var maður handtekinn grunaður um nytjastuld bifreiðar, skjalafals, vörslu fíkniefna, brot á lyfjalögum, hylmingu og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu.

Upp úr klukkan hálfellefu í gærkvöldi var tilkynnt um konu í annarlegu ástandi í Hafnarfirði. Hún var handtekin og vistuð sökum ástands í fangageymslu. Við vistun fundust ætluð fíkniefni á henni.

Tilkynnt var um ökumann í annarlegu ástandi á Sæbraut um hálfníuleytið í gærkvöldi. Bifreiðin var stöðvuð skömmu síðar á Vesturlandsvegi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert