Vígahnöttur vestur af Vatnsleysuströnd

Þessari mynd náði Friðþjófur á Vatnsleysuströnd á laugardagskvöld.
Þessari mynd náði Friðþjófur á Vatnsleysuströnd á laugardagskvöld. Ljósmynd/Friðþjófur Johnson

„Ég er búinn að sjá mörg stjörnuhröp en ekkert þessu líkt, nema ef til vill einu sinni áður,“ segir Friðþjófur Johnson. Hann var á Vatnsleysuströnd þegar skær vígahnöttur lýsti upp himininn vestur yfir hafinu um klukkan tíu á laugardagskvöldið.

„Fyrst hélt ég jafnvel að ég hefði misst af uppskoti flugelds, en eftir að ég skoðaði myndirnar varð alveg ljóst að svo var ekki,“ segir Friðþjófur í samtali við mbl.is.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á um tíu sekúndna tímabili og sést því braut loftsteinsins greinilega. Friðþjófur segir að honum hafi fylgt nokkur slóði.

Þessa mynd er Friðþjófur búinn að vinna í myndvinnsluforriti og …
Þessa mynd er Friðþjófur búinn að vinna í myndvinnsluforriti og segir hann að liturinn á ljósrákinni sem þarna sést sé nær því að vera eins og hún leit út með berum augum. Á hinni myndinni tekur hún grænan blæ af norðurljósunum. Ljósmynd/Friðþjófur Johnson

„Þetta var ansi stór bjarmi, grænn og hvítur. Á fyrri myndinni litast hann svolítið af ljósunum sem ég leiðrétti svo á seinni myndinni,“ segir hann.

Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur tjáir mbl.is að litlar sem engar líkur séu á því að steinninn hafi náð að yfirborði jarðar.

„Hann hefur sennilega ekki verið sérlega stór, ég myndi giska á hnefastærð, en það er mjög lausleg ágiskun þar sem fjarlægðin er óviss,“ segir hann. Grænn litur brunans geti þá bent til að steinninn hafi innihaldið magnesín.

mbl.is

Bloggað um fréttina