Sölubann ESB brot á EES-samningnum

Ýmiss konar persónulegur hlífðarbúnaður er þegar uppseldur hjá birgi hér …
Ýmiss konar persónulegur hlífðarbúnaður er þegar uppseldur hjá birgi hér á landi. mbl.is/Hallur Már

„Við höfum komið skilaboðum skýrt á framfæri við Evrópusambandið, í samvinnu við EFTA-ríkin, að þetta sé ekki í samræmi við EES-samninginn. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þessu verði kippt í liðinn,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um bann ESB við sölu á á persónulegum hlífðarbúnaði út fyrir sambandið.

And­lits­grím­ur, hlífðarfatnaður, einnota hanskar, hlífðargleraugu og annar persónulegur hlífðarbúnaður sem heil­brigðis­starfs­fólk og aðrir í fram­lín­unni þurfa, er þegar upp­seld­ur hjá birgi hér á landi. 

Þorsteinn Austri, sölustjóri hjá Dynjanda, sagði í samtali við mbl.is í morgun að staðan væri skelfileg. Fyrirtækið fékk þau svör frá birgjum sínum í Þýskalandi, Ítalíu og Noregi í gær að ekki væri hægt að selja Íslendingum þessar vörur vegna banns Evrópusambandsins.

Guðlaugur Þór gerir ráð fyrir að búið verði að leysa úr málinu fyrir lok dags þannig að hægt verði að fá þennan búnað til landsins.

„Auðvitað höfum við líka leitað annarra leiða í samvinnu við önnur ráðuneyti, en þetta er ekki í samræmi við EES-samninginn þannig að við gerum ráð fyrir að framkvæmdastjórnin leysi úr þessu,“ áréttar Guðlaugur Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert