15,4% atvinnuleysi á Suðurnesjum

Útlit atvinnumála á Suðurnesjum hefur versnað hratt á undanförnum vikum. Stórar fjöldauppsagnir hafa verið á síðustu dögum. Atvinnuleysi á svæðinu mælist nú um 15,4% eða 2.325 manns.

Í myndskeiðinu er rætt við Guðbjörgu Kristmundsdóttur sem er formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, en hún er í einangrun vegna faraldurs kórónuveirunnar. Hún gerir ráð fyrir að meirihluti félagsmanna í félaginu muni missa vinnuna eða þurfa að nýta sér úrræði stjórnvalda en félagsmenn eru fleiri en 5000 talsins. 

Einnig er rætt við Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóra AVIÖR, en fyrirtækið er dótturfyrirtæki Öryggismiðstöðvarinnar og hefur séð um öryggisþjónustu fyrir Icelandair og flugvöllinn. 97 starfsmenn fyrirtækisins voru færðir niður í 25% starfshlutfall og nýta þannig hlutabótaleið stjórnvalda en alls eru um 3.000 manns að nýta þau úrræði samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun.

Þá er rætt við Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, en hann segir augljóst að ríkið þurfi að beina fé í stórar framkvæmdir á svæðinu. 

Eftir gærdaginn eru 17% eða 1.804 íbúa í Reykjanesbæ á atvinnuleysisskrá sú tala er talin líkleg til að hækka upp í 24% í apríl. 55% eru karlar og 65% eru Íslendingar, 23% Pólverjar og 11% koma frá öðrum löndum. 27% eru á aldrinum 18-29 ára, 32% eru 30-49 ára og 21% eru á aldrinum 50-69 ára. 

Enn er verið að fara yfir umsóknir sem bárust um mánaðarmótin og því gætu tölurnar hækkað enn meira. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert