63 metrar í hviðum

Veðrið fer versnandi í nótt og allvíða stormur eða rok í fyrramálið og fram eftir morgundegi með stórhríð. Ofsaveður er í Öræfum og hefur vindurinn farið í 63 metra á sekúndu í hviðum. Síðdegis á morgun lagast veður mjög á sunnan- og austanverðu landinu, en norðan- og vestanlands batnar það annað kvöld og aðfaranótt mánudags.

Fjölmargir vegir eru lokaðir eða illfærir, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Lokað er um Hellsiheiði, Þrengsli og Suðurstrandarveg. Mosfellsheiði er ófær og þar er stórhríð. Holtavörðuheiði er lokuð og eins Fróðárheiði. Þungfært er á Svínadal en þæfingur á Bröttubrekku. Víða er mjög hvasst og blindbylur þar sem skefur. Stórhríð og ófærð um mestalla Vestfirði. Víða stórhríð og vegir ófærir eða lokaðir á Norðurlandi og hið sama á við um Norðausturland. Fjarðarheiði er lokuð en stórhríð er á Fagradal og ekki ferðaveður. Þjóðvegur 1 er lokaður í Öræfum en þar er ofsaveður. Víða ekki ferðaveður vegna hvassviðris, snjókomu eða skafrennings og slæms skyggnis. Þjóðvegur 1 er lokaður undir Eyjafjöllum. 

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan sex í fyrramálið og gildir hún til klukkan 19 annað kvöld. „Austan og norðaustan hvassviðri eða stormur (15-23 m/s) og snjókoma. Búast má við takmörkuðu eða lélegu skyggni, versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflanir eru mögulegar.“

Á Suðurlandi hefur appelsínugul viðvörun verið í gildi frá klukkan 22:00 og gildir hún til klukkan 16:00 á morgun. „Austan og norðaustan 20-28 m/s. Mjög snarpar vindhviður við fjöll, t.d. má búast við vindhviðum yfir 40 m/s undir Eyjafjöllum. Útlit fyrir snjókomu með lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.
Gul viðvörun er í gildi við Faxaflóa og gildir hún þangað til klukkan þrjú í nótt en þá tekur við appelsínugul viðvörun og gildir til klukkan tvö aðfaranótt mánudags.
Við Breiðafjörð er gul viðvörun þangað til sex í fyrramálið en þá tekur appelsínugul viðvörun við og gildir til klukkan fjögur aðfaranótt mánudags.

Á Vestfjörðum er gul viðvörun í gildi en klukkan fimm í nótt tekur við appelsínugul viðvörun og gildir til klukkan fimm aðfaranótt mánudags.

Á Norðurlandi vestra og á Ströndum gildir gul viðvörun þangað til átta í fyrramálið er appelsínugul viðvörun tekur gildi og varir til miðnættis annað kvöld. 

Á Norðurlandi eystra er appelsínugul viðvörun frá sex í fyrramálið til klukkan 18 og á Austurlandi að Glettingi frá fimm í fyrramálið til 15. Á Austfjörðum tekur appelsínugul viðvörun gildi klukkan þrjú í nótt og gildir til klukkan 13. Á Suðausturlandi er appelsínugul viðvörun í gildi til klukkan 13 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert