Lögreglan hafi fylgt gildandi verklagsreglum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurnesjum segist hafa fylgt gildandi verklagsreglum við aðkomu sína að andláti konu á sextugsaldri en konan fannst látin í heimahúsi um þarsíðustu helgi. Lögreglan segir að rannsókn sé í fullum gangi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Þar segir ennfremur að að kvöldi 28. mars hafi ættingi konunnar tilkynnt lát hennar til lögreglunnar á Suðurnesjum. Rannsóknarlögreglumaður fór þegar ásamt lækni og presti á staðinn. „Ekkert á vettvangi benti til þess að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Sama máli gegndi um líkskoðun á sjúkrastofnun,“ segir lögreglan.

„Hinn 1. apríl barst lögreglu niðurstaða réttarmeinafræðings þess efnis að sterkur grunur léki á að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti. Þá þegar var karlmaður á sextugsaldri handtekinn vegna rannsóknar á málinu. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 1. apríl til 8. apríl næstkomandi og staðfesti Landsréttur þann úrskurð 3. apríl síðastliðinn.

Það skal undirstrikað að lögregla fylgdi gildandi verklagsreglum við aðkomu að málinu frá fyrstu stundu.

Rannsókn er í fullum gangi en ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo komnu máli,“ segir lögreglan ennfremur.

Uppfært kl. 13:25

Lögreglan segir að misfarið hafi verið með dagsetningu í tilkynningu sem lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér fyrr í dag varðandi rannsókn á mannsláti í heimahúsi.

„Hið rétta er að réttarmeinafræðingur upplýsti um mögulega saknæmt andlát hinn 1. apríl s.l. Þá strax var maður, sem nú situr í gæzluvarðhaldi, handtekinn. Beðist er velvirðingar á mistökunum.“

Þetta hefur því verið leiðrétt í fréttinni. 

mbl.is