Umferðin þyngri í Reykjavík

Síðdegisumferðin á höfuðborgarsvæðinu var þyngri í dag en verið hefur síðustu daga, sem helgast annars vegar af erindagjörðum fólks á síðasta degi fyrir páskafrí en hins vegar, sem veldur meiri áhyggjum lögreglu, af ferðastandi á fólki á leiðinni út úr bænum.

Annað til marks um ferðahug þvert á tilmæli almannavarnadeildar lögreglu var aukin umferð í verslunum í Borgarnesi fyrr í dag. 

„Lögreglan ætlar að vera mjög sýnileg við þjóðvegi á leiðinni út úr bænum á morgun þannig að fólk viti að við séum að fylgjast með,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hann gerir ráð fyrir að umferðin þyngist eitthvað á morgun, en vonar að það verði ekki meira en nauðsyn ber til.

Eins og komið hefur fram er mælst til þess að fólk ferðist heima, en ekki á landsbyggðinni. Tilmæli eru þó bara tilmæli, þannig að það kemur ekki til þess að fólki sé meinuð för eitt eða neitt. Þá eru einhverjir þeirra sem ferðast á milli byggðarlaga á morgun búsettir annars staðar en í Reykjavík og ekkert sem segir að menn geti ekki farið heim til sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina