Kínverskum ferðamönnum fjölgaði um 17% á Norðurlandi

mbl.is/Sigurður Bogi

Bandaríkin voru stærsta markaðssvæði norðlenskrar ferðaþjónustu á síðasta ári, rétt eins og á landinu öllu. Um 4% aukning varð á seldum gistinóttum til Bandaríkjamann miðað við árið áður, en mesta fjölgunin var í seldum gistinóttum til Kínverja eða um 17%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands. Tölurnar eru fengnar frá Hagstofunni

Í takti við þróun ársins 2018 varð aukning á seldum gistinóttum á svokölluðum „öxlum“ sem eru apríl-maí og september-október, og yfir vetrartímann sömuleiðis. Seldum gistinóttum yfir sumarið fækkaði hins vegar og því er heildarfjöldi seldra gistinátta nánast sá sami og árið áður.

Komu- og brottfararþegar sem fóru í millilandaflug um Akureyrarflugvöll árið 2019 voru 16.050 sem er 38% aukning á milli ára.

Samtals voru 2.256 launþegar með aðalstarf sitt í ferðaþjónustu á Norðurlandi árið 2019. Um 4% færri höfðu það sem aukastarf miðað við árið áður, alls 2.616. Samtals voru því 4.872 í aðal- og aukastarfi í ferðaþjónustu á Norðurlandi árið 2019, sem voru 12% af öllum launþegum.

Hér má nálgast frekari tölulegar upplýsingar um ferðaþjónustu á Norðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert