Mannfjölgun snarminnkar

Almennt gildir að í óvissuástandi eru barneignir færri en ella, …
Almennt gildir að í óvissuástandi eru barneignir færri en ella, þó að miklar barneignir eftir hrun hafi verið undantekning þar á. Það eru þó ekki barneignir sem ráða úrslitum um mannfjölgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fljótu bragði mætti hugsa sér að kórónuveirufaraldurinn á Íslandi skilaði sér í breyttum mannfjöldaspám, annars vegar vegna minnkaðrar fæðingartíðni sökum óvissuástandsins og hins vegar vegna þeirra beinu dauðsfalla sem faraldurinn veldur.

Sannleikurinn er sá að faraldurinn skilar sér vissulega í breyttum mannfjöldaspám, þ.e. fólki mun sannarlega ekki fjölga hér á landi eins hratt og gert var ráð fyrir, en það er ekki vegna ofangreindra tveggja þátta, heldur fyrst og fremst vegna þess að fólksflutningar snarminnka. Þar að auki er ekki víst að fæðingum fækki yfirleitt, ekki gerðist það eftir hrun.

Þetta er meðal þess sem Violeta Calian, aðferðafræðingur Hagstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is um þau áhrif sem faraldurinn kann að hafa á fólksfjölda á Íslandi. „Það verða að líkindum minni hagvöxtur og atvinnuleysi sem leiða til þess að frávik verður í fólksflutningum frá því sem gert var ráð fyrir. Það leiðir síðan til breyttrar mannfjöldaspár, en fæðingar- og dánartíðni muni ekki hafa nærri því eins mikil áhrif á hana enda ekki eins meiriháttar og hitt,“ segir Violeta.

Þegar deyja sex á dag

Undanfarin ár hafa fæðst rúmlega 4.000 börn á ári hérlendis en á sama tíma hafa um 2.000 manns látist, flestir í elstu aldurshópum. 2.000 árleg dauðsföll gera tæplega sex á dag. Dauðsföllin sem hafa þegar orðið og munu verða vegna COVID-19 munu því ekki breyta miklu um heildarfjölda dauðsfalla á árinu, ólíkt því sem gerist í löndum sem hafa orðið illa úti, eins og Ítalíu, þar sem Violeta segir að dauðsföllin muni hafa skýr áhrif á tölfræðina.

Líklegra væri hér á landi að einhverjar breytingar yrðu á fæðingartíðninni vegna óvissuástandsins, þó að vissulega hefðu þær breytingar ekki róttæk áhrif á heildarmannfjöldaspá. Að sögn Violetu urðu þau sérstöku tíðindi við efnahagshrunið árið 2008 að barneignum fjölgaði. Hún telur að þar hafi hugsanlega spilað inn í að til dæmis konur án atvinnu hafi viljað „nýta tímann“ og eignast börn, en ekkert fast liggi fyrir um ástæðurnar. Hvort þetta geti endurtekið sig nú er ekki gott að segja en það ætti að fara að koma í ljós í lok árs.

Meginreglan er þó að barneignum fækki í óvissu og fæðingarnar eftir hrun voru undantekning. Ástandið nú er líka sérstakt vegna takmarkana á fundum fólks, en þær munu leiða til færri fæðinga hjá hópum sem hafa af ýmsum ástæðum ekki góðar forsendur til að stýra frjósemi sinni hvort sem er kreppa eða ekki, eins og til dæmis hjá unglingum í Bandaríkjunum sem eignast börn. Talið er að þeim unglingabarneignum muni fækka vegna samskiptatakmarkana.

Ljóst að aðfluttum mun fækka

Violeta telur að það sem muni breyta mestu um mannfjölda hér á landi verði umræddar breytingar á fólksflutningum. Aðfluttum muni fækka verulega fyrst um sinn, ekki aðeins vegna beinna takmarkana á ferðum fólks, heldur líka þar sem hagkerfið dregst mjög saman og atvinnuleysi snareykst. Það fælir fólk frá og gæti einnig fengið aðflutta til að hverfa aftur til heimalands síns.

Ef innfluttum útlendingum fækkar mjög, snarhægist á mannfjölgun á Íslandi, …
Ef innfluttum útlendingum fækkar mjög, snarhægist á mannfjölgun á Íslandi, en þeir hafa staðið undir henni að verulegu leyti síðustu ár. Skjáskot/Hagstofan

Það sem gæti haldið þeirri fækkun í skefjum væri sú staðreynd að mati Violetu að Íslendingar munu líka flytja út í minni mæli, þar sem ástandið er ekki miklu skárra víða annars staðar í heiminum. Innfluttir og útfluttir Íslendingar hafa síðustu ár verið hér um bil jafnmargir, um 3000-bilið, en útfluttum hefur þó fækkað ár frá ári frá því 2015.

2017, 2018 og 2019 hafa flutt í kringum 10.000 erlendra ríkisborgara til landsins, einkum vegna vinnu. Á sama tíma flytjast rúmlega 4.000 aftur út, sjá nánar í töflunni hér að ofan.   Dæmigerða mannfjölgun síðustu ár má sjá árið 2018: 4.228 börn fæddust en 2.254 manns létust á árinu. Fæddir umfram dána voru því 1.974. 14.275 fluttust til landsins en 7.719 utan. Aðfluttir umfram brottflutta voru því 6.556. Ef fæðingar- og dánartíðni héldist því næstu ár söm, en hlutfall aðfluttra minnkaði mjög vegna aðstæðnanna, gæti fjölgunin minnkað um nokkur þúsund, jafnvel að teknu tilliti til minni brottflutnings um leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert