Kynsjúkdómatilfellum fjölgar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði vísað í breytta tölfræði yfir kynsjúkdóma …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði vísað í breytta tölfræði yfir kynsjúkdóma á blaðamannafundi almannavarna og á daginn kemur að tilfellum er að fjölga, þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. Ljósmynd/Lögreglan

„Þótt COVID-19-faraldurinn fari mikinn um þessar mundir láta kynsjúkdómarnir sitt ekki eftir liggja,“ segir í kynsjúkdómadálki nýjasta tölublaðs Farsóttafrétta, fréttabréfs sóttvarnalæknis. Fleiri tilfelli af kynsjúkdómum hafa greinst í fólki hér á landi fyrstu þrjá mánuði ársins en fyrstu þrjá mánuði síðasta árs.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði vísað í þessa tölfræði á upplýsingafundum almannavarna með hálfkveðnum vísum sem ollu meðal annars þeim misskilningi að tilfellunum væri að fækka.

Hið rétta er að tilfellum er að fjölga þrátt fyrir samkomubann, en tölfræðin er þó aðeins frá janúar, febrúar og mars. Langmesti vöxturinn er í sárasóttartilfellum (sýfilis), en á þeim hefur orðið „umtalsverð aukning“. Árið 2019 voru tilfellin samtals orðin tíu í lok marsmánaðar en í ár eru þau orðin fleiri en 20. Árin 2015 og 2018 urðu tilfellin vart fleiri en 20 allt árið, sjá graf úr Farsóttafréttum:

Skjáskot/Farsóttafréttir

Um það bil helmingur þeirra sem greinst hafa með sárasótt á árinu er af erlendu bergi brotinn og 92% sárasóttarsjúklinganna eru karlar.

Engin HIV-smit í febrúar og mars

Lekandatilfelli eru einnig fleiri en þau voru í fyrra en sú aukning er þó mjög væg og nemur að því er virðist bara einu eða tveimur tilfellum. Karlar eru 73% þeirra sem greindust með lekanda og 82% þeirra eru þá með íslenskt ríkisfang.

Klamydían stendur í stað, uppsöfnuð tilfelli á árinu eru um 500 talsins. 92% sjúklinganna þar eru Íslendingar og kynjahlutföllin eru jöfn.

Engin tilfelli af HIV-smiti voru skráð í febrúar og mars á þessu ári sem kann að skýrast af því að flestir sem greinst hafa undanfarin ár eru af erlendu bergi brotnir og að mjög hefur dregið úr komu útlendinga til landsins, einkum í marsmánuði. Í janúar greindust fimm einstaklingar með smit, þar af tveir Íslendingar.

Þróun lekandatilfella:

Skjáskot/Farsóttafréttir
Þróun klamydíutilfella:
Skjáskot/Farsóttafréttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert