300 milljóna samdráttur hjá Ferðafélagi Íslands

Laugavegurinn er vinsælasta gönguleið landsins.
Laugavegurinn er vinsælasta gönguleið landsins. mbl.is/Rax

Samdráttur vegna tekna sem Ferðafélag Íslands verður af vegna erlendra ferðamanna sem fara ekki Laugaveginn í sumar nemur hátt í 300 milljónum króna.

Um 90% af tekjum félagsins á ári hverju koma vegna gistingar erlendra ferðamanna í skálum á Laugaveginum. Venjulega gista á bilinu 15 til 18 þúsund erlendir ferðamenn í skálum félagsins á ári hverju og eru gistinæturnar um 40 þúsund.

Þó svo að félaginu takist að fylla eitt hundrað ferðir með tuttugu manns til dæmis í fjögurra til fimm daga göngu á Laugaveginum myndi það aðeins nema um þriðjungi af þessum gistináttafjölda.

Þetta segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Hann tekur fram að áhuginn á ferðum hjá félaginu hafi verið að aukast á meðal Íslendinga eftir að kórónuveiran kom upp. Aftur á móti hafi orðið hrun í bókunum ferðaskrifstofa fyrir erlenda ferðamenn á skálum á hálendinu. „Við erum vongóð um að umferð landsmanna um hálendið komi upp í það hrun sem orðið hefur. Það er ekkert í hendi enn þá en við skynjum mikinn áhuga og bókanir á skálum eru aðeins farnar af stað,“ greinir hann frá. 

Hann segir mikla óvissu þó ríkja um reglur í tengslum við veiruna. Þær muni þrengja að starfseminni. Til dæmis mega aðeins fimmtíu manns vera á sama tíma á skálasvæðum.

Laugavegurinn er sívinsæll.
Laugavegurinn er sívinsæll. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

Alltaf komið sterk út úr þrengingum

Að sögn Páls er ekki mikil afkoma af þeim ferðum sem Íslendingar fara á vegum félagsins enda er áhersla lögð á að bjóða upp á ódýrar ferðir og hvetja fólk til að kynnast landinu. „En félagið hefur alltaf komið sterkt út úr þrengingum í samfélaginu,“ segir hann og nefnir áhrif af völdum seinni heimsstyrjaldarinnar, atvinnuleysis í kringum árið 1970 og bankahrunsins. „Það fjölgar í félaginu, fólk leitar inn á við og ferðast innanlands.“ Hann segir mesta auðinn liggja í félagsmönnum, sem eru að nálgast tíu þúsund og hafa aldrei verið fleiri. 

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

Ráðningar skálavarða í uppnámi

Vegna samdráttarins í ár er allt í uppnámi varðandi ráðningu skálavarða en á sumrin hafa verið ráðnir 50 til 60 slíkir. Sömuleiðis verður dregið úr fyrirhuguðum framkvæmdum. Markmiðið er samt að segja ekki upp fastráðnum starfsmönnum. „Um leið og við bregðumst við stöðunni leggjum við áherslu á að tryggja að félagið komi upp standandi út úr þessum hremmingum og að næsta haust förum við að sjá til sólar,“ segir Páll og bætir við að útgáfustarf félagsins sé í miklum blóma. Árbókin sé að koma út og tvö gönguleiðarit líti dagsins ljós í byrjun sumars.

mbl.is