„Það er best að hafa samræmi í þessu“

Frá skimun í Leifsstöð. Fá kórónuveirusmit hafa greinst við landamærin …
Frá skimun í Leifsstöð. Fá kórónuveirusmit hafa greinst við landamærin undanfarið samanborið við smitfjölda innanlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist telja best að hafa samræmi í afléttingum sóttvarnaaðgerða innanlands og á landamærum. Reglugerð um aðgerðir vegna kórónuveirunnar á landamærunum gildir til 28. febrúar næstkomandi og segir Þórólfur í skoðun hvað taki við þá.

Við komu til landsins þurfa Íslendingar og þeir sem hafa tengsl við íslenskt samfélag að sýna gilt bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu og undirgangast sýnatöku, nema þeir hafi jafnað sig á veirusmiti á síðustu 7 til 180 dögum.

Þeir sem ekki hafa tengsl við samfélagið þurfa einnig að sýna umrætt vottorð og niðurstöðu úr neikvæðu Covid-19 prófi sem tekið er fyrir ferðina til Íslands. Undanþága á því er gefin ef viðkomandi sýnir fram á að hafa smitast af kórónuveirunni á síðustu 7 til 180 dögum.

Óbólusettir, eða þeir sem hafa ekki jafnað sig á smiti nýlega, þurfa að fara í tvær sýnatökur við komuna til landsins með fimm daga sóttkví á milli.

Þá er öllum ferðamönnum skylt að forskrá sig fyrir komuna til landsins, samkvæmt reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir aðgerðirnar ekki „miklu harðari“ hér

Hvers vegna eru aðgerðirnar á landmærunum enn svo strangar?

„Það er misskilningur að tala um að við séum með miklu harðari aðgerðir á landamærunum en allir aðrir. Þetta er mjög breytilegt milli landa. Það eru líka Evróputilmæli um það hvaða vottorð eigi að gilda, hvernig þau eigi að vera o.s.frv. þannig að þetta er aðeins öðruvísi á landamærunum en innanlands.“

Nú krefjast flest Evrópuríki enn bólusetningarvottorðs eða vottorðs um fyrri sýkingu við sín landamæri. Eru einhverjar líkur á að því verði aflétt hér á landi?

„Það er bara í skoðun, eins og áður get ég ekki tjáð mig um einstaka þætti í þessu. Stjórnvöld verða að fjalla um þetta á sínum vettvangi áður en maður fer eitthvað að tjá mig um það.“

Willum Þór hefur sagt útlit fyrir að mögulegt verði að aflétta öllum aðgerðum innanlands fyrir lok mánaðar en reglugerð um aðgerðir innanlands gildir til 25. febrúar næstkomandi. Þórólfur hefur ekki gefið upp hvort það hafi verið ákveðið að fara þá í algjörar afléttingar en ljóst er að ráðist hefur verið í verulegar afléttingar innanlands á meðan reglurnar hafa haldist óbreyttar á landamærunum.

Væri ekki eðlilegt að afléttingar á landamærum myndu haldast í hendur við algjörar afléttingar innanlands?

„Jú, jú, það er best að hafa samræmi í þessu,“ segir Þórólfur.

Fá smit hafa greinst á landamærunum undanfarið miðað við gríðarlegan smitfjölda innanlands. Þannig er nýgengi á hverja 100.000 íbúa sl. 14 daga innanlands 7.170 en 234 við landamærin.

mbl.is