Ekki hægt að tala um hjarðónæmi strax

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Metfjöldi kórónuveirusmita greindist í gær og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að ekki sé hægt að tala um hjarðónæmi í samfélaginu fyrr en daglegum smitum fækkar.

Toppnum virðist enn ekki náð og er ekki alveg víst að farið verði í algjörar afléttingar á aðgerðum í næstu viku.

Tæplega 100.000 kórónuveirusmit hafa greinst hér á landi síðan faraldurinn hófst fyrir tveimur árum. 2.881 smit greindist í gær.

„Við vitum ekki hvenær við náum þessum toppi, það er náttúrulega stóra spurningin. Auðvitað er maður alltaf að vonast til þess að toppnum sé náð en þetta eru mettölur og það er greinilega mjög mikil útbreiðsla í gangi.“

Mun ekki hrynja hratt niður

Spurður um mögulegt hjarðónæmi segir Þórólfur:

„Við þurfum fyrst að sjá lægri smittölur áður en við förum að tala um hjarðónæmi. Hvenær það næst veit maður ekki nákvæmlega. Það gerist hægt, þetta mun ekki hrynja niður einn tveir og þrír, þetta mun fara niður hægt og bítandi.“

Nú hefur fólk smitast tvisvar og jafnvel þrisvar af kórónuveirunni, er þá hægt að tala um að hjarðónæmi verði til?

„Hjarðónæmi kemur þrátt fyrir það. Það eru mjög fáir sem eru að smitast tvisvar, það eru 2-3% af þeim sem hafa greinst til þessa og mjög fáir hafa smitast þrisvar.“

„Það þarf eitthvað að gerast“ 25. febrúar

Núverandi reglugerð um takmarkanir innanlands gildir til næstkomandi föstudags. Spurður hvort þá standi til að aflétta öllum aðgerðum, eins og heilbrigðisráðherra hefur sagt mögulegt, segist Þórólfur ekki vilja tjá sig um það sem stendur, það þurfi að fá að koma í ljós á næstu dögum.

„Núverandi reglugerð um takmarkanir innanlands gildir til 25. febrúar sem er í lok næstu viku þannig að það þarf eitthvað að gerast þá,“ segir Þórólfur.

En það er ekki komið á hreint hvað það verður?

„Þetta fer bara í þetta sama ferli og svo er það ráðherrann sem endanlega ákveður.“

Þegar öllu verður aflétt, verður einangrun þá líka afnumin?

„Ef öllu verður aflétt þá verður einangrun aflétt sem skyldu. Það yrðu eftir sem áður tilmæli til fólks að halda sig til hlés ef það veikist eða greinist.“

Neyðarráðstöfun að kalla fólk úr einangrun

Þó svo að hlutfallslega hafi ekki verið mikið um alvarleg veikindi vegna Covid-19 að undanförnu þá steðjar annar alvarlegur vandi að Landspítala og fleiri heilbrigðisstofnunum: Mönnunarvandi.

„Það eru yfir 300 manns á Landspítala frá vinnu vegna Covid. Þetta skapar náttúrulega svakalegt vandamál í rekstrinum hjá spítalanum,“ segir Þórólfur.

Spurður hvort til skoðunar sé að kalla starfsfólk, sem treystir sér til þess, inn úr einangrun með öruggum hætti segir hann það undir stofnununum sjálfum komið.

„Við erum ekki að tala um að taka veikt fólk inn í vinnu, heldur fólk sem er ekki veikt og fólk sem er samþykkt og getur mætt og vinnur þá undir ákveðnum skilyrðum,“ segir Þórólfur.

Í slíkum tilvikum þarf að sækja um undanþágu frá einangrun til sóttvarnalæknis.

„Þetta er algjör neyðarrástöfun og þetta verður að vera síðasta úrræðið sem menn hafa. Ég held að neyðin geti orðið verri ef það eru ekki til starfsmenn til þess að sinna heimilisfólki á hjúkrunarheimilum eða sjúku fólki á spítölum eða heilbrigðisstofnunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina