Ók of hratt og var með bilaðar bremsur

mbl.is/​Hari

Ökumaður bifreiðar sem lést í umferðarslysi fyrir ári í Langadal ók of hratt og missti stjórn á bifreiðinni. Niðurstaða rannsóknar á bifreiðinni sýnir að hemlar bifreiðarinnar voru bilaðir og að líkur eru á að hemlabúnaður hafi verið í bágbornu ástandi þegar aðalskoðun var framkvæmd tæpum þremur mánuðum fyrir slysið. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var fyrir viku. 

Að kvöldi 23. apríl 2019 ók ökumaður fólksbifreið vestur Norðurlandsveg í Langadal. Ökumaðurinn var einn á ferð. Rétt við bæinn Æsustaði missti ökumaðurinn hægri hjól bifreiðarinnar út fyrir slitlagið á beinum kafla vegarins. Vitni voru að slysinu. Ökumaðurinn náði að koma bifreiðinni aftur inn á veginn en beygði of harkalega þannig að bifreiðin fór að skríða til og rann á hlið út af veginum vinstra megin. Bifreiðin byrjaði fljótlega að velta og stöðvaðist á hvolfi utan vegar.

Ökumaðurinn var spenntur í öryggisbelti og loftpúði í stýri sprakk út. Bifreiðin valt margar veltur og hlaut ökumaðurinn banvæna fjöláverka í slysinu.

Ökutækið var fólksbifreið af gerðinni Hyundai Matrix, nýskráð árið 2007. Hún var tekin til skoðunar 6. febrúar 2019 og hlaut skoðun án athugasemda. Hún var útbúin slitnum negldum vetrarhjólbörðum þar sem margir naglanna voru horfnir eða brotnir. Rannsókn leiddi í ljós að henni hafði verið ekið á hjólbörðunum með of háum loftþrýstingi í töluverðan tíma. Var miðhluti mynstursins meira slitinn en út við kantana.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós bilun í hemlabúnaði. Hemlaborðar að aftan voru ónýtir og líkur á að hemlun afturhjóla hafi verið takmörkuð. Stöðuhemill var óvirkur. Hemlabúnaður að framan var talsvert slitinn og breidd slitflatar undir öryggismörkum.

Niðurstaða rannsóknar á bifreiðinni var m.a. sú að líkur eru á að hemlabúnaður hafi verið í bágbornu ástandi þegar aðalskoðun var framkvæmd tæpum þremur mánuðum fyrir slysið.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert