„Eins og forseti ASÍ þekki ekki lífskjarasamninginn“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er vægast sagt hissa á …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er vægast sagt hissa á ummælum Drífu Snædal, forseta ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segist ekki skilja ummæli Drífu Snædal, forseta ASÍ, í fréttum RÚV fyrir helgi um að lífskjarasamningurinn hafi verið mjög hófsamur. Hann viðurkennir þó að hann hafi verið hófsamur fyrir tekjuhæstu hópana.

Þetta skrifar Vilhjálmur í Facebook-færslu þar hann fer yfir ummæli Drífu og lýsir undrun sinni á þeim. „Hvaða rugl er þetta?“ spyr hann.

Drífa sagði að samningarnir sem gerðir voru síðasta haust hafi verið mjög hófsamir og ekki hinir „stóru samningar“. Hluti af þeim hefði verið að ef það yrði hagvöxtur þá myndu koma til ákveðnar launahækkanir en á móti hafi krónutöluhækkanir verið lægri.

Baráttunni ekki lokið

„Það er eins og forseti ASÍ þekki ekki lífskjarasamninginn, en þar var samið um hæstu krónutöluhækkanir sem gerðar hafa verið í marga áratugi til handa lágtekjufólki. Öll áhersla í síðustu samningum miðaði að því að stíga þétt og kröftug skref í að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Vilhjálmur.

Hann tekur fram að hann sé ekki að halda því fram að vinnu við að lagfæra kjör lágtekjufólks sé lokið en það sé morgunljóst að lífskjarasamningarnir hafi verið jákvætt skref í þeirri lagfæringu.

„Við eigum eftir að taka mörg skref til viðbótar til að lagfæra kjör lágtekjufólks. Þeirri vinnu og baráttu lýkur aldrei en að forseti ASÍ skuli ýja að því að lágtekjufólk sé að taka skell vegna lífskjarasamningsins lýsir yfirgripsmikilli vanþekkingu á innihaldi samningsins, enda byggðist hann á því að fanga tekjulægsta fólkið á íslenskum vinnumarkaði umfram hina tekjuhæstu. Kannski er forseti ASÍ á móti þeirri nálgun,“ bætir hann við.

mbl.is