Spá 21 stigs hita í Ásbyrgi

Það má búast við því að einhverjir leggi leið sína …
Það má búast við því að einhverjir leggi leið sína í Ásbyrgi um helgina. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Líklegt er að fyrstu 20 stig ársins mælist í dag að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

„Í dag er útlit fyrir suðlægan strekking (víða 10-15 m/s). Það verður þungbúið sunnan- og vestanlands með viðloðandi súld og rigningu. Hiti 8 til 13 stig. Á Norður- og Austurlandi verður hins vegar bjart veður og hiti 14 til 20 stig. Það er sem sagt líklegt að fyrstu 20 stig ársins mælist í dag. Ef við leyfum okkur að spá nákvæmar þá má skjóta á að hæsti hiti dagsins á landinu verði 21 stig á veðurstöðinni í Ásbyrgi.

Á morgun gefur sunnanáttin eftir og verður yfirleitt á bilinu 5-10 m/s (gola eða kaldi). Á sunnan- og vestanverðu landinu má búast við dálitlum skúrum. Mögulega sést aðeins til sólar milli skúranna. Norðaustan til er áfram útlit fyrir þurrt og bjart veður, en hitinn nær væntanlega ekki eins hátt og í dag og gæti orðið kringum 18 stig þegar best lætur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðlæg átt 8-15 m/s. Rigning og súld með köflum sunnan- og vestanlands, hiti 8 til 13 stig. Bjartviðri um landið norðaustanvert með hita allt að 20 stigum.
Sunnan 5-10 á morgun og dálitlir skúrir, en áfram bjart og hlýtt norðaustan til.
Á laugardag:

Sunnan 5-10 m/s, dálitlir skúrir og hiti 8 til 13 stig. Bjartviðri norðaustan til á landinu með hita að 18 stigum.

Á sunnudag (hvítasunnudag):
Suðvestan 5-10 og skúrir, en þurrt og bjart á austanverðu landinu. Hiti 7 til 15 stig, mildast á Austurlandi.

Á mánudag (annan í hvítasunnu):
Suðvestan 3-8, skýjað með köflum og sums staðar lítils háttar skúrir, en þurrt austanlands. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:
Vestlæg átt, skýjað og svolítil væta, en þurrt á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast suðaustan til.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðlæg átt með dálítilli rigningu og svölu veðri norðaustan til á landinu, en yfirleitt léttskýjað sunnan- og vestanlands og milt að deginum.

mbl.is