Kári kippti í spotta og blaðamaður slapp við sóttkví

Fyrstu kynni Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og blaðamanns eru …
Fyrstu kynni Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og blaðamanns eru rakin í greininni. Ljósmynd/Lögreglan

Elizabeth Kolbert, blaðamaður bandaríska blaðsins New Yorker, fékk undanþágu frá reglum um tveggja vikna sóttkví er hún kom til landsins til að skrifa fyrir blaðið um árangur Íslendinga í baráttunni við kórónuveiruna. Þetta kemur fram í greininni sem birtist í dag

Kolbert sendi utanríkisráðuneytinu tölvupóst þar sem óskað var eftir undanþágu, en fékk fyrst neitun. Í kjölfarið hafði hún samband við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem sagðist myndu kippa í nokkra spotta. Nokkrum dögum síðar fékkst jákvætt svar. Kolbert mætti sleppa undan sóttkví en þó með ströngum skilyrðum. 

Rétt er að taka fram að utanríkisráðuneytið hefur ekki heimild til að veita undanþágu frá sóttkví heldur er það í höndum sóttvarnalæknis hjá embætti landlæknis. Blaðamenn hafa getað sótt um undanþágu frá 7. maí. 

Þannig mætti hún ekki nota almenningssalerni, ekki ferðast um opinberar stofnanir að óþörfu og aðeins taka viðtöl við opinbera starfsmenn að fengnu leyfi yfirmanna og þá á fyrirfram ákveðnum stað.

Opnun sundlauga er nefnd í greininni.
Opnun sundlauga er nefnd í greininni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greinin er ítarleg og veitir góða innsýn í störf smitrakningarteymis almannavarna, hlutverk Íslenskrar erfðagreiningar og landlæknis, þótt óþarfi sé að rekja þá sögu fyrir íslenska lesendur. Á öðrum degi Íslandsferðarinnar hitti Kolbert Kára Stefánsson í fyrsta sinn er hann bauðst til að sækja hana á hótelið sem hún dvaldi á.

Ljóst er að Kári fer ekki í manngreinarálit milli íslenskra og erlendra blaðamanna líkt og lesa má af fyrstu kynnum þeirra. „Um leið og ég kom inn í Porsche-bílinn hans spurði hann mig hvaðan ég væri. Ég svaraði að ég væri frá Vestur-Massachusetts,“ rekur Kolbert í greininni. „Massachusetts er sennilega alleiðinlegasti staður á jarðríki,“ tilkynnti Kári henni þá.

Hann hafi síðar sagt henni ástæðu þess að hann ákvað að taka þátt í baráttunni gegn veirunni. Kári hafi verið að hlusta á útvarpsfréttir og heyrt þar eitthvert mat um að 3,4% þeirra sem sýktust af kórónuveirunni dæju. „Ég skildi ekki hvernig þau gætu reiknað út dánartíðni án þess að vita dreifingu veirunnar, svo ég settist með vinnufélögum mínum og sagði þeim að við skyldum bjóðast til að skima fyrir veirunni meðal almennra Íslendinga.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is