Enn mikið fóður fyrir veiruna í íslensku samfélagi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var fyrstur á mælendaskrá á málþingi Háskóla …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var fyrstur á mælendaskrá á málþingi Háskóla Íslands „Út úr kóf­inu – heilsa, efna­hag­ur og stjórn­mál“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að hafa barist við kórónuveirufaraldurinn í margar vikur erum við komin á ákveðinn áfangastað og nú þurfum við að líta til þess hvert við ætlum að fara næst. Það eru mörg sjónarmið um hvert við sem þjóð eigum að stefna og hvernig við eigum að fara að því. Framhaldið verður erfiðara og snúnara heldur en leiðin sem við erum búin að fara til þessa.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í erindi sínu á málþingi Háskóla Íslands „Út úr kófinu – heilsa, efnahagur og stjórnmál“. Erindi Þórólfs var með yfirskriftina „Leiðir út úr COVID-19: sóttvarnasjónarmið“.

Tvennt sérkennilegt við þennan faraldur

Í upphafi fór Þórólfur stuttlega yfir þróun faraldursins hér á landi og sagði að hann hefði verið sérkennilegur að mörgu leyti.

Í fyrsta lagi hefði smituðum fjölgað mjög hratt í byrjun, sem skýrist líklega af mörgum Íslendingum sem komu sýktir hingað til landsins frá skíðasvæðum í Ölpunum. Það hefði komið mörgum óvart. „Okkur stóð ekki alveg sama á tímabili,“ sagði Þórólfur.

Í öðru lagi hefði það komið nokkuð á óvart hversu hratt faraldurinn féll niður því yfirleitt fjari faraldrar af þessu tagi hægt og bítandi út en þessi faraldur hefði risið hratt og fallið hratt útskýrði hann og sýndi kúrfuna á glæru.

Telur Þórólfur að það megi þakka þeim aðgerðum sem gripið var til sem og samstöðu allra í samfélaginu. Hann sagði að það hefði tekist mjög vel að bæla faraldurinn niður og að lágt hlutfall þjóðarinnar hefði smitast, líklega milli 1-2%, sem þýði að samfélagslegt ónæmi sé lítið.

„Fóður fyrir þessa veiru er enn tiltölulega mikið í samfélaginu,“ sagði hann.

Það var létt yfir mönnum á málþinginu.
Það var létt yfir mönnum á málþinginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tortrygginn í garð fréttaflutnings um bóluefni

Næst fór hann yfir framtíðarhorfur og sagði lítið hægt að segja til um þær með vissu enda væri margt enn á huldu um þessa veiru. Hann sagðist ekki vera bjartsýnn á að bóluefni yrði aðgengilegt fljótlega þrátt fyrir jákvæðar fréttir af þróun slíkra efna undanfarið. Reynslan sýni að það taki langan tíma að búa til virkt og öruggt bóluefni.

Hann tók það þó fram að hann teldi ólíklegt að við fengjum útbreiddan og stóran faraldur aftur hér í framtíðinni en við myndum sjá einstaka smit og líklega litlar hópsýkingar. Stóra verkefnið núna til að koma í veg fyrir slíkt væri að viðhalda árvekni almennings um að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Þrír möguleikar í stöðunni

Þá fór hann yfir verkefni næstu mánaða og ára og þá aðallega með tilliti til þess hvernig eða hvort við hleypum fólki inn í landið. Sagði hann þrjá möguleika vera í stöðunni hvað það varðaði.

Það væri í fyrsta lagi hægt að opna landamærin upp á gátt og hleypa öllum inn í landið án nokkurra ráðstafana. Þórólfur telur að sú aðferð væri óskynsamleg á þessari stundu enda væri með henni verið að bjóða hættunni heim.

Annar möguleiki væri að loka landinu alveg og hleypa engum ferðamönnum inn. Minnti hann á að landið væri ekki lokað heldur væri fólk sem kæmi hingað sett í sóttkví eða sóttkví B. Sagðist hann telja ólíklegt að hægt væri að loka landinu alveg og að það myndi líklega einungis seinka komu veirunnar hingað aftur.

Þriðji möguleikinn væri sá að beita stýringu á því hvernig fólk kemur inn til landsins. Alþjóðleg samvinna væri ekki í augsýn eins og er og þá væri erfitt að gera tvíhliða samninga því það sé erfitt að nálgast nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu veirunnar í öðrum löndum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir fóru yfir málin. …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir fóru yfir málin. Til stendur að hefja skimanir á landamærum ekki seinna en 15. júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðisvottorð eigi að vera tekin gild

Þórólfur sagði að heilbrigðisvottorð væri ein leið og að hann væri fylgjandi því að hleypa fólki, sem greinst hefur með veiruna og náð bata, inn í landið ef það sýnir fram á vottorð þess efnis sem tekið er gilt af yfirvöldum hér í landi. Mótefnamæling væri hins vegar ekki raunhæf leið því óvíst sé hvaða próf virki best.

Skimun á landamærum væri önnur leið til að stýra innflæði ferðamanna og það væri raunhæfur kostur þótt að það yrði umfangsmikil vinna. Það þurfi margt að gerast til að hægt verði að hefja skimun á landamærum 15. júní eins og stefnt er að.

Þórólfur tók þó fram að sú leið væri ekki fullkomin og að einhverjir sýktir myndu sleppa í gegnum þá síu en hann telji leiðina þá bestu sem völ er á. Sú leið væri líka fjárfesting til framtíðar og við ættum að horfa á hana þannig en ekki þannig að hún sé peningaeyðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert