Varað við varasömum akstursskilyrðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir ört kólnandi veður á morgun með skúrum eða slydduéljum norðaustan til á landinu og éljum á fjallvegum. Akstursskilyrði geta orðið varasöm og eru vegfarendur hvattir til að sýna aðgát. Þetta kemur fram í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.

„Norðvestlæg átt í dag, 5-10 m/s. Dálítil súld vestanlands og við norðausturströndina fram eftir degi, en víða bjartviðri síðdegis. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á SA-landi, en kólnar talsvert fyrir norðan og austan í kvöld.

Gengur í norðaustan 8-13 m/s á morgun með skúrum, jafnvel slydduéljum á norðaustanverðu landinu en þurrt að kalla á Vesturlandi. Svöl norðanátt á föstudag með éljum norðaustan- og austanlands, en bjart með köflum sunnan heiða. Á laugardag gengur norðanáttin niður og léttir víða til,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Snýst í norðvestan 5-10 m/s. Léttskýjað SA-til, annars skýjað og dálítil væta á annesjum NA-lands. Rofar víða til síðdegis, en áfram skýjað við N- og V-ströndina. Hiti yfirleitt 10 til 18 stig, hlýjast á SA-landi en kólnar á NA-verðu landinu síðdegis.

Á fimmtudag:
Gengur í norðaustan 8-13 m/s. Úrkomulítið V-lands, annars skúrir og jafnvel slydduél NA-til. Hiti 3 til 14 stig, hlýjast á SV-landi.

Á föstudag:
Norðan 8-13 m/s, en 13-18 austast. Él NA- og A-lands, en skýjað með köflum sunnan heiða. Hiti 0 til 10 stig, mildast syðst.

Á laugardag:
Minnkandi norðanátt og víða bjart veður, en skýjað á NA-verðu landinu. Hiti 6 til 13 stig, en 1 til 6 á N- og A-landi.

Á sunnudag (sjómannadaginn):
Suðlæg átt og léttskýjað N- og A-lands, en dálítil rigning á V-landi. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á A-verðu landinu.

Á mánudag:
Sunnanátt og súld eða rigning, en víða léttskýjað og hlýtt í veðri N- og A-lands.

Á þriðjudag:
Suðlæg átt og dálítil rigning eða skúrir, en úrkomulítið á N-landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert