Til helvítis og tilbaka

Hlynur hefur snúið við blaðinu og vill nú hjálpa öðrum …
Hlynur hefur snúið við blaðinu og vill nú hjálpa öðrum að ná bata. mbl.is/Ásdís

Hlynur Rúnarsson er rúmlega þrítugur háskólanemi. Hann er fíkill á batavegi en neyslusaga hans er frábrugðin margra annarra. Hann leiddist út í hörð efni eftir steranotkun en hefur aldrei snert kannabis og afar sjaldan bragðað áfengi. Hlynur var burðardýr vegna fíkniefnaskuldar og sat í fangelsi í Brasilíu í rúmt ár. Hann fann síðar botninn, leitaði sér hjálpar og hefur nú verið edrú í heilt ár. Facebook-síðan hans, Það er von, hefur veitt fjölda manns vonarglætu í baráttunni við fíknina.

Hlynur ber það ekki utan á sér að hafa lifað í hörðum heimi eiturlyfja eða að hafa þurft að upplifa hreinasta helvíti í skítugu og ógeðslegu fangelsi hinum megin á hnettinum. Hann er hraustlegur að sjá, brosmildur og hress. Enda hefur hann sagt skilið við fíkniefnadjöfulinn en hann fagnaði eins árs edrúafmæli nú í lok maí.

Blaðamaður er ein af tæplega fjórtán þúsund Íslendingum sem fylgst hafa með honum og öðrum fíklum og alkóhólistum í bata á Facebook-síðunni Það er von. Síðan hefur sannarlega slegið í gegn enda mikil þörf á að veita fíklum og aðstandendum þeirra von og sýna þeim fram á að hægt sé að sigrast á fíkn og skömm og fá líf sitt til baka. Hlynur skrifar þar sjálfur pistla og segir það bæði hjálpa sér og öðrum. Hann segir blaðamanni hispurslaust frá lífi sínu fyrir og eftir neysluna. Í dag lifir hann fallegu lífi, stundar háskólanám og dreymir um að opna áfangaheimili einn daginn.

Var alltaf bílstjórinn

Hlynur átti góða æsku og unglingsár og snerti hvorki áfengi né eiturlyf. Hann kláraði stúdentspróf á tveimur og hálfu ári samhliða vinnu.

„Ég held í raun að ég hafi fyrirlitið sjálfan mig …
„Ég held í raun að ég hafi fyrirlitið sjálfan mig svo mikið frá því ég byrjaði í efnum og eftir að ég þróaði með mér fíknina. Ég var mjög lengi í afneitun en undir niðri hataði ég sjálfan mig. Og innst inni fannst mér það bara gott á mig að ég hefði verið tekinn,“ segir Hlynur Rúnarsson, en hann sat fjórtán mánuði í fangelsi í Brasilíu. mbl.is/Ásdís

„Uppeldislega séð var ekkert sem benti til þess að ég myndi lenda í neyslu. Ég prófaði áfengi í fyrsta sinn 21 árs. Ég drakk aldrei og var gaurinn sem var alltaf bílstjórinn fyrir vinina. Alkóhólismi er í ættinni og ég fyrirleit alkóhólisma,“ segir hann.

Hlynur æfði mikið líkamsrækt og keppti í fitness. Nítján ára hóf hann neyslu á sterum.

„Ég prófaði fyrst að keppa í fitness án stera og lenti ekki í því sæti sem ég vildi. Ég er gríðarlega tapsár. Ég fékk þráhyggju að verða stærri, betri, sterkari og flottari. Og þá fór ég að taka stera,“ segir hann og nefnir að glæpahneigð fylgi gjarnan steraneyslu.

„Ég lendi í því í kreppunni að vera með bíl á lánum. Ég missti vinnuna og gat ekki borgað af lánunum og fer þá að rækta gras til að eiga pening. Ég hef sjálfur aldrei reykt gras á ævinni. Ég byrja þarna að rækta og selja og hagnast á þessu, án þess í raun að vita nokkurn tímann um afleiðingar efnanna né áhrif þeirra,“ segir hann.

Steríótýpan af glansmyndabófa

Steraneyslan leiddi Hlyn út í sterkari efni.

„Svo þegar ég var að fara að keppa á fitness-móti og þurfti að „kötta“ gekk það erfiðlega. Efedrín er oftast notað til að „kötta“,“ segir hann og útskýrir að efedrín sé brennsluefni en ekki vímuefni.
„Ég tók þessa afdrifaríku ákvörðun að álykta það að efedrín og amfetamín væri nánast það sama og af því að það var ekki til efedrín á landinu tók ég inn amfetamín. Ég var búinn að lesa mér til um þetta og þóttist vita betur en aðrir. Hrokinn var alveg í botni. Á þessum tíma var ég svaka töffari með gullkeðjur og var steríótýpan af glansmyndabófa, nákvæmlega eins og þú sérð í tónlistarmyndböndum. Á þessum tíma þótti mér þetta töff, sem er náttúrlega bara sorglegt. En þarna var ég ungur og vitlaus og sterarnir höfðu áhrif á minn hugsunarhátt og hvað ég upplifði sem kúl,“ segir hann og segist hafa þurft að uppfylla kröfurnar sem fylgdu því að vera svona „glansmyndabófi“. Hann þurfti að eiga BMW, ganga um með rándýrt úr og eiga flotta kærustu.
„Þetta eru sorgleg gildi en þarna var ég svona yfirborðskenndur.“

Fangelsi í Brasilíu

Heltók amfetamínið þig frá byrjun?

„Já, í raun, þótt ég upplifði það ekki þá. Ég tók þetta á morgnana fyrir æfingu og sagði sjálfum mér að ég væri íþróttamaður; ég væri ekki í neyslu. Ég seldi mér þá hugmynd að ég væri að gera þetta öðruvísi en allir aðrir,“ segir Hlynur.

„Ég fór mikið í það að lána og fá lánað og kom mér mjög fljótt á milli steins og sleggju. Ég var kannski búinn að fá lánað og lána það áfram og átti svo ekki fyrir því að borga. Ég fór því að selja og selja en átti svo ekki fyrir mat vegna skulda. Þá þurfti ég annaðhvort að rukka fólk og ganga hart að því eða finna aðra lausn, sem var að fara út að ná í efni. Á þeim tíma var ég ekki að hugsa um afleiðingarnar. Ég var búinn að vera stuttan tíma í neyslu og hélt þá að allir væru vinir mínir,“ segir Hlynur en hann var þá kominn í klemmu vegna skuldarinnar.

„Ég kaus því að fara til Brasilíu. Það var mjög afdrifarík ákvörðun og ég setti líf mitt og þáverandi kærustu minnar að veði,“ segir Hlynur en hann fór ásamt kærustu sinni til Brasilíu að kaupa kókaín. Áður en lagt var af stað í heimferð voru þau handtekin á hótelherbergi. Eina sem beið þeirra var fangelsi í ókunnu landi.

Kisa bjargaði lífinu

„Lögreglan í Brasilíu vissi af okkur allan tímann. Við fórum fyrst í tíu daga í einangrun og þaðan fórum við í önnur fangelsi. Hún fór í opið fangelsi en ég fór í fangelsi þar sem ég var læstur inni í klefa allan sólarhringinn með fimmtán karlmönnum. Þarna voru sex kojur, þannig að ég svaf stundum á gólfinu. Ég var lengst í svona klefa í sex mánuði í einu,“ segir Hlynur og segist ekki mikið vilja rifja upp þennan tíma í fjölmiðlum. Hann sýnir þó blaðamanni myndir sem hann tók af mygluðum mat sem fangar fengu, af þröngum vistarverum fullum af karlmönnum og af villiköttum sem björguðu geðheilsu Hlyns.

„Þarna voru villtar kisur. Flestallar myndir mínar eru af kisum sem ég gaf mat með mér. Það var happa og glappa hvort við fengum nóg að borða,“ segir hann og sýnir mér fleiri myndir af kettinum.
„Kisa eignaðist kettlinga og ég hjálpaði henni,“ segir Hlynur og segist enn vera mikill kattavinur.

Heldurðu að kisurnar hafi hjálpað þér þarna inni?

„Já, þeir voru aðalatriðið, ég hafði þá eitthvað að hugsa um, annað en sjálfan mig. Kisan bjargaði lífi mínu en ég þurfti að skilja hana eftir sem var eitt af því erfiðasta sem ég hef gert í lífinu.“

Eiturlyf til að deyfa

Hlynur var fjórtán mánuði í þessu brasilíska fangelsi. Hann horfði þar upp á skelfilega hluti, eins og fanga drepa aðra fanga, barsmíðar og eiturlyf. Hlynur hélt sig sjálfur alfarið frá eiturlyfjum í fangelsinu. Hann kom þaðan út allur í marblettum sökum næringarskorts og hélt heim til Íslands. Hann segist hafa verið mjög dofinn við heimkomuna og viljað gleyma þessari reynslu. 

„Ég fékk vinnu hjá Norðuráli en mér var svo sagt upp án ástæðu. Ég fór þá að vinna á gröfu og byrjaði í mjög eitruðu sambandi. Ég er þarna á hnefanum edrú og ekki búinn að þiggja neina hjálp,“ segir Hlynur og segist hafa fallið átta mánuðum eftir heimkomuna.

„Ég kem heim, byrja að vinna og stend mig vel en lendi svo í því að fortíðin segir mér að ég sé ekki nógu góður. Þá fór ég beint í kókaínneyslu. Ég drekk ekki, ég hef drukkið kannski tíu sinnum á ævinni,“ segir hann.

Allslaus inn á Vog

Segðu frá deginum áður en þú fórst í meðferð; hvar fannstu botninn?

 „Það var hreinlega þannig að ég var búinn að vera fimm daga edrú, á hnefanum. Tólf tímum áður en ég átti tíma á Vogi datt ég í það og mætti ekki. Ég hafði þá átt pantað tvisvar áður en ekki mætt og þarna missti ég aftur af tímanum mínum. Ég hafði enga stjórn og missti það alveg. Ég fer í örvæntingu minni upp á geðdeild og segi lækni frá þessu og segist ekki vita hvert ég eigi að fara eða hvað ég eigi að gera. Ég sagði honum að ég vildi fara inn á Vog en mig vantaði næturstað eina nótt. Ég hótaði honum að ég myndi annars drepa mig. Ég labbaði út með fjórar töflur af einhverju og með tíma inn á Vog daginn eftir. Töflurnar voru svo sterkar og ég var ekki með neitt lyfjaþol enda ekki búinn að misnota lyf. Ég tók samt bara eina töflu en svaf átta tíma á Miklatúni. Ég rotaðist bara. Ég og þáverandi kærasta redduðum okkur svo gistingu í Laugardalnum og við sváfum í koju á meðal túristanna. Daginn eftir tók ég strætó upp á Gullinbrú og labbaði þaðan inn á Vog. Allslaus. Ég hafði ekkert með mér og var algjörlega búinn á því. Þetta var 27. maí, 2019,“ segir Hlynur sem er því nýbúinn að fagna eins árs edrúmennsku.

Facebook-síða Hlyns - Það er von

Vildi veita öðrum von

Hlynur kom út úr meðferð og fékk fyrst vinnu hjá Arnarlaxi. Hann segir sér hafa liðið vel en viðurkennir að það hafi ekki alltaf verið auðvelt.

„Krakkfíkn er mjög sterk fíkn. Ég þurfti að slíta öll tengsl við gamla vini og tengja mig inn í annars konar félagsskap. Ég hef stundað þrjá til fjóra fundi á viku allt árið og hefur það verið mjög gefandi,“ segir Hlynur og segist hafa kynnst fullt af skemmtilegu fólki.

Þegar Hlynur hafði verið edrú í nokkra mánuði stofnaði hann Facebook-síðuna Það er von.

„Ég vildi veita öðrum von. Þegar ég var í neyslu hafði mamma leitað í sams konar síðu sem heitir The Addict’s Diary en þar er mikið af batasögum. Þar er sýnt að þetta sé hægt; þetta er ekki bara einstefna til helvítis. Ég veit að þessi síða veitti mömmu minni von þegar ég var upp á mitt versta. Hún gat samglaðst þeim sem voru að fá börnin sín til baka. Mér fannst þetta svo fallegt að þarna var einhver maður, einhver edrú gaur, að veita mömmu minni von með því að birta færslur frá fólki sem var að ná sér. Hugmyndin kom þaðan. Svo fór ég að lesa mikið um þetta og fékk kannski smá þráhyggju fyrir því að skilja allt betur. Það er sagt að það að skrifa hjálpi oft við úrvinnslu tilfinninga. Ég sá hag í því að geta kannski skrifað mig frá vandamálum. Ég skrifaði fyrst færslu á mína eigin Facebook-síðu og Eitt líf deildi henni og ég fékk þrjú þúsund læk og átta hundruð og eitthvað deilingar. Það kveikti í mér. Að samfélagið samþykkti mig, og ekki bara fólk sem var eins og ég heldur samfélagið í heild. Það lét mér líða vel og þá vill maður meira. Þetta gaf sjálfsvirðingu minni „búst“. Ég var ekki bara allt þetta slæma og kannski væri hægt að taka mark á mér í þessum efnum. Ég hafði stóra reynslu og hafði farið alla leið til helvítis og tilbaka.“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins:

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »