Keppnisþyrstir farnir af stað

Keppendur í Morgunblaðshringnum mættu keppnisþyrstir til leiks nú klukkan sex eftir mikla þurrð í mótum vegna kórónuveirunnar.

Um er að ræða fyrsta bikarmót sumarsins í fjallahjólreiðum en mótið fer venjulega fram í lok apríl. Því var seinkað vegna útbreiðslu kórónuveiru hérlendis. 

71 keppandi er skráður til leiks og er það talsvert meira en í fyrra þegar um 50 manns tóku þátt. 

Keppendur við rásmarkið nú klukkan sex.
Keppendur við rásmarkið nú klukkan sex. mbl.is/Arnþór

Um er að ræða sjö kílómetra hring á svæðinu við Rauðavatn, Hádegishæð og Paradísardal rétt eins og í fyrra. Keppendur hjóla einn til fjóra hringi eftir því í hvaða keppnisflokki þeir eru.

Í Morgunblaði laugardagsins var Ingvari Ómarssyni og Hafsteini Ægi Geirssyni spáð sigri í karlaflokki og Maríu Ögn Guðmundsdóttur, Karen Axelsdóttur og Kristínu Eddu í kvennaflokki.

Verðlaunaafhending verður klukkan átta í kvöld og mun mbl.is greina frá úrslitunum. 

mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert