Heilu tonnin fara til spillis

Starfshópurinn afhendur Guðmundi Inga Guðbranssyni umhverfisráðherra tillögur sínar.
Starfshópurinn afhendur Guðmundi Inga Guðbranssyni umhverfisráðherra tillögur sínar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Leggja þarf grunn að breyttum hugsunarhætti fólks með því að ala upp kynslóðir sem henda ekki mat. Hluti af því felst í aukinni formlegri kennslu um matarsóun, afleiðingar hennar og aðgerðir til að draga úr henni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn matarsóun, en hópurinn skilaði á dögunum tillögum til umhverfisráðherra. Í skýrslu starfshópsins eru sett fram markmið um hvernig draga megi úr matarsóun um 50% fyrir árið 2030.

Ár hvert fara heilu tonnin af matvælum til spillis, en samkvæmt rannsókn frá árinu 2016 hendir hver Íslendingur að meðaltali 23 kílóum af nýtum mat á ári og 39 kílóum af ónýtanlegum mat. Til ónýtanlegs matar telst matur sem almennt er ekki talinn hæfur til neyslu, s.s. hýði af grænmeti, kaffikorgur, bein og eggjaskurn, en til nýts matar allur matur sem á einhverjum tímapunkti var mögulegt að borða, jafnvel þótt hann hafi skemmst vegna þess að hann var ekki borðaður í tæka tíð eða geymdur á rangan hátt. Þá er um 40 þúsund tonnum matar hent á veitingastöðum á ársgrundvelli.

Matarbanki taki til starfa

Í skýrslunni segir að baráttan gegn matarsóun flókið sé flókið úrlausnarefni sem krefjist margvíslegra og samþættra ráðstafana. Tillögur hópsins endurspegla það, en þær eru í 24 liðum og snúa bæði að stjórnvöldum og atvinnulífi. 

Meðal tillagna er að tengja gjaldtöku fyrir sorphirðu við umfang og tegund þess sem hent er. Nú a dögum leggja flest sveitarfélög stakt gjald á meðhöndlun úrgangs óháð magni og teguns, en í skýrslunni segir að með innleiðingu sérstakts kerfis, „borgaðu þegar þú hendir“, megi gera sóun matvæla kostnaðarsamari.

Þá sé mikilvægt að regluverk og ákvæði starfsleyfa matvælafyrirtækja stuðli ekki að matarsóun heldur hafi það að markmiði að tryggja hámarksnýtingu matvæla.

Einnig er lagt til að stofnaður verði sérstakur matarbanki til að færa mat, sem þegar er til, til þeirra sem þurfa á honum að halda. Matarbankinn tæki á móti mat frá matvælaiðnaði sem ekki selst, en er þó öruggur til neyslu, og kemur honum áfram til stofnana eða samtaka sem geta nýtt hann.

mbl.is