Sex ára kjörtímabil og tólf ára hámark

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Til umsagnar er frumvarp um …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Til umsagnar er frumvarp um breytingu á ákvæðum stjórnarskrárinnar um forsetaembættið. AFP

Lagt er til að kjörtímabil forseta Íslands verði lengt í sex ár og um leið að kveðið sé á um að forseti geti ekki setið lengur en tvö slík kjörtímabil, samtals tólf ár.

Þessar tillögur er að finna í frumvarpi frá forsætisráðuneytinu sem er til umsagnar í samráðsgáttinni sem stendur. Þar eru lagðar til breytingar á forsetaembættinu en um leið ýmsar aðrar breytingar á stjórnarskránni svo að hún endurspegli betur gildandi rétt. Umsagnir má senda inn næstu tvær vikur.

Sömuleiðis er lagt til prósentuhlutfall fyrir fjöldann sem þarf að skrifa undir meðmælalista forsetaframbjóðenda. Í nýafstöðnum kosningum þurfti að safna 1.500 undirskriftum kosningabærra manna, fjöldi sem var ákveðinn skömmu eftir lýðveldisstofnun, en í nýju frumvarpi er lagt til að að minnsta kosti 2,5% kosningabærra manna á Íslandi skrifi undir listann. Miðað við það hefðu rúmir 6.000 þurft að skrifa undir hjá frambjóðendum í kosningunum nú.

Að öðru leyti er lagt til að formleg heimild forseta til að fella niður saksókn verði afnumin, að forseta verði gert skylt að leita eftir áliti forseta Alþingis og formanna þingflokka áður en tekin er ákvörðun um þingrof að tillögu forsætisráðherra og loks að ábyrgðarleysi forseta sé afnumið nema þegar um ræðir embættisathafnir sem hann framkvæmir að tillögu og á ábyrgð ráðherra.

Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent hefur samið frumvarpið í samráði við formenn stjórnmálaflokkana á Alþingi. Í frumvarpinu segir að leitast sé við að setja fram tillögur sem breið samstaða getur ríkt um og að litið hafi verið til hugmynda stjórnlaganefndar, frumvarps stjórnlagaráðs og rökræðukönnunar sem farið hefur fram. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert