Fordæma „baktjaldamakk“ vegna HS Veitna

Hafnafjarðarbær.
Hafnafjarðarbær. mbl.is/RAX

Samtökin Íbúalýðræði krefjast þess að söluferli HS Veitna verði stöðvað í ljósi nýrra upplýsinga sem sýna að samskipti milli Hafnarfjarðarbæjar og Kviku banka voru hafin fjórum vikum áður en bæjarfulltrúar minnihlutans fengu fyrst að heyra af tillögu um að hefja söluferli á hlut bæjarins í HS Veitum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum Íbúalýðræði. 

„Þá sýna gögnin að samkomulag við Kviku banka um að annast söluna var tilbúið áður en málið kom til kasta bæjarráðs og án vitneskju fulltrúa minnihlutans. Síðar reyndi bæjarstjóri að leyna þessum upplýsingum með því að gera þær ekki opinberar þegar þess var óskað í bæjarráði“, segir í tilkynningunni. 

Samtökin Íbúalýðræði fordæma þetta baktjaldamakk milli Hafnarfjarðarbæjar og Kviku banka í tengslum við sölu á hlut Hafnfirðinga í HS Veitum. Þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem þarna birtast kasta rýrð á allt söluferlið og samtökin Íbúalýðræði krefjast þess að það verði stöðvað og að vilji bæjarbúa til sölunnar verði kannaður áður en lengra er haldið.“

Samtökin standa nú fyrir undirskriftasöfnun sem miðar að því að knýja fram íbúakosningu um fyrirhugaða sölu á hlut Hafnfirðinga í HS Veitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka