Stærsti skjálfti frá 27. júní

Yfirlit yfir skjálfta síðustu 48 klukkustundir. Eins og sjá má …
Yfirlit yfir skjálfta síðustu 48 klukkustundir. Eins og sjá má hafa þeir flestir orðið úti af Gjögurtá á Flateyjarskaga. Skjálftar yfir 3 að stærð eru merktir með stjörnu. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti af stærð 4,2 varð um 13 kílómetrum vestnorðvestan af Gjögurtá klukkan 17:41 á 4,8 kílómetra dýpi. Skjálftahrina hefur staðið yfir á svæðinu frá 19. júní og hafa um 13.000 misstórir skjálftar mælst á svæðinu.

„Skjálftinn nú er sá stærsti síðan 27. júní þegar áþekkur skjálfti reið yfir. „Þetta er áminning um að hrinan er í fullum gangi,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni í samtali við mbl.is.

Þrátt fyrir að aðeins séu nokkrar mínútur liðnar þegar blaðamaður slær á þráðinn hafa Veðurstofunni þegar borist fjöldi ábendinga frá fólki sem fann til skjálftans, og segir Einar að þær hafi borist frá fólki á öllu Eyjafjarðarsvæðinu, allt inn til Akureyrar.

Skjálftinn er á sama svæði og mesta virknin hefur verið en Einar segir aðspurður að erfitt sé að spá fyrir um áframhaldandi virkni út frá honum, þ.e. hvort stór skjálfti boði að annars slíkur sé á leiðinni. „En þetta þýðir að það er áframhaldandi virkni á svæðinu og, eins og við höfum verið að segja, ekki útilokað við fáum stærri skjálfta.“ Því séu fyrri ábendingar til fólks á svæðinu í fullu gildi.

mbl.is