Gervigreind innleidd í Leifsstöð

Nýtt kerfi hefur verið innleitt.
Nýtt kerfi hefur verið innleitt. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Kerfið gagnast Isavia á Keflavíkurflugvelli til að spá fyrir um fjölda farþega á hverjum degi og einnig hvenær dagsins þeir koma,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, um Veovo-kerfið sem nú hefur verið tekið í notkun á Keflavíkurflugvelli. Er Ísland jafnframt fyrsta landið til að taka framangreint kerfi í notkun. 

Kerfið notast við gervigreind og er ætlað að stýra flæði farþega um flugstöðina á skilvirkan hátt. Þannig vinnur kerfið í rauntíma að því að auka rekstrarhagkvæmni, koma í veg fyrir raðir og hraða ferlum. Með þessu eru vonir bundnar við að öryggi farþegar aukist og verði aukinheldur til þess að auðvelda fólki að stunda félagsforðun í flugstöðinni. 

Tryggir rétta mönnun í flugstöðinni

Ljóst er að þegar flugumferð fer aftur af stað af fullum krafti mun Veovo-kerfið einfalda viðbrögð við erfiðum og óvæntum aðstæðum í flugstöðinni. Gefur kerfið því snemma upp viðvörun ef von á er á flöskuhálsum í flugstöðinni.

„Þannig er hægt að tryggja rétta mönnun okkar hjá Isavia í öryggisleit, lögreglu í landamæraeftirliti og einnig á öðrum stöðum á flugvellinum. Mönnunin sé þá í samræmi við þarfir hverju sinni. Þessi lausn virkar þannig fyrir allar afgreiðslustöðvar á Keflavíkurflugvelli til að áætla álag á hverjum tíma dagsins og þannig auðvelda skipulagningu fram í tímann,“ segir Guðjón. 

Að hans sögn var sambærilegt kerfi í notkun fyrir á flugvellinum. Nýja kerfið er þó öflugra en talsverðan tíma hefur tekið að innleiða það. „Sambærilegt kerfi var áður í notkun á flugvellinum en innleiðing á þessu nýja kerfi, sem er ætlað að bæta þjónustuna við farþega, tók um ár,“ segir Guðjón. 

mbl.is