Upplifa streitu í starfi

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ríflega helmingur kennara upplifir streitu í vinnunni og er það ívið hærra hlutfall en að jafnaði í öðrum ríkjum OECD sem tóku þátt í rannsókn stofnunarinnar á kennslu á unglingastigi. 

Hérlendis tengist streita þó síður álagi vegna undirbúnings kennslu eða yfirferðar á prófum og verkefnum, heldur fremur breytilegum kröfum ríkis og sveitarfélaga og álagi vegna fjarvista kennara.

Út er kominn annar hluti TALIS-skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um unglingastig grunnskóla. Í rannsókninni eru kennarar og skólastjórar í 48 ríkjum spurðir um endurgjöf, starfsánægju, skólabrag, ábyrgð, mat á störfum kennara og margt fleira. Á Íslandi voru allir skólastjórar og kennarar á unglingastigi grunnskóla í úrtaki rannsóknarinnar og var svörunin um 75%.

Á vef Menntamálastofnunar kemur fram að tarfsmannavelta í íslenskum grunnskólum er svipuð og á hinum Norðurlöndunum en lægri en að jafnaði í aðildarríkjum OECD og þátttökuríkjum í TALIS-rannsókninni.

Flestir kennara segja anda samvinnu og gagnkvæms stuðnings ríkja meðal starfsfólks skólanna og að það sé hvatt til að sýna frumkvæði.

Fram kemur að endurgjöf til kennara er mun sjaldgæfari á Íslandi og öðrum Norðurlöndum en innan OECD almennt, en virðist þó fara vaxandi. Þá er fremur fátítt hér á landi að skólastjórar segi skólann vera í samkeppni við aðra skóla um nemendur.

Kennarar voru spurðir hversu margir nemendur með sérþarfir væru alls í bekkjum/kennsluhópum sem þeir kenndu á unglingastigi í skólanum. Sú skilgreining fylgdi með að nemendur með sérþarfir væru þeir nemendur sem hefðu hlotið formlega greiningu á þörf sinni fyrir sérkennslu vegna þess að þeir væru andlega, líkamlega eða tilfinningalega illa staddir. Að það væri oft vegna þessara nemenda sem viðbótarúrræði hefðu fengist frá hinu opinbera eða einkaaðilum (starfsfólk, námsgögn eða fjármunir) til að styðja við nám þeirra.

Fjöldi nemenda með sérþarfir er svipaður hér á landi og á Norðurlöndunum, að mati kennaranna, í kennsluhópnum sem þeir sinna og lýsa í rannsókninni en þessar tölur eru lægri í OECD og TALIS að meðaltali. E.t.v. á þetta rætur að rekja til mismunandi hugtakanotkunar, því erfitt er að gera sér í hugarlund að sérþarfir séu í reynd minni í öðrum TALIS-löndum, að því er segir í skýrslunni sem gefin var út í sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert